Landsvirkjun hefur gert Reykjavíkurborg óskuldbindandi tilboð í Toppstöðina í Elliðaárdal, með það í huga að starfrækja þar höfuðstöðvar sínar.

Tilboð Landsvirkjunar felur annars vegar í sér kaup á Toppstöðinni sjálfri en einnig kaup á lóð undir bílastæði þar sem núverandi lóð býður ekki upp á stæði fyrir starfsfólk og gesti. Með áætluðum gatnagerðargjöldum þá er tilboðið um 725 milljónir króna, að því er segir í tilkynningu á vef Landsvirkjunar.

Landsvirkjun hefur gert Reykjavíkurborg óskuldbindandi tilboð í Toppstöðina í Elliðaárdal, með það í huga að starfrækja þar höfuðstöðvar sínar.

Tilboð Landsvirkjunar felur annars vegar í sér kaup á Toppstöðinni sjálfri en einnig kaup á lóð undir bílastæði þar sem núverandi lóð býður ekki upp á stæði fyrir starfsfólk og gesti. Með áætluðum gatnagerðargjöldum þá er tilboðið um 725 milljónir króna, að því er segir í tilkynningu á vef Landsvirkjunar.

„Þá gerir tilboðið ráð fyrir að ásýnd Toppstöðvarinnar verði færð nær upprunalegu útliti frá 1948 og áhersla verði á að halda í sögulegt svipmót byggingarinnar. Leitast verður við að endurnýta núverandi mannvirki eftir því sem nútímakröfur leyfa, verði niðurstaðan sú að Landsvirkjun komi höfuðstöðvum sínum þar fyrir.“

Landsvirkjun þurfti að rýma höfuðstöðvar sínar við Háaleitisbraut 68 á síðasta ári, eftir að mygla greindist í húsinu og hefur félagið nú ákveðið að selja það. Landsvirkjun flutti höfuðstöðvar sínar tímabundið í leiguhúsnæði að Katrínartúni 2.

Í tilkynningunni segir að kannaðir hafa verið möguleikar á að leigja eða kaupa nýjar höfuðstöðvar, eða byggja þær frá grunni. Húsið að Rafstöðvarvegi 4 sé einn af þeim kostum sem horft hefur verið til.

Landsvirkjun átti Toppstöðina á árum áður

Toppstöðin var í eigu Landsvirkjun á árunum frá árinu 1965 til 2008. Húsið að Rafstöðvarvegi 4 hýsti áður fyrr olíu- og kolakynta varaaflstöð, svokallaða toppstöð. Reykjavíkurborg lagði stöðina fram sem hluta af stofnframlagi sínu til Landsvirkjunar árið 1965.

Landsvirkjun segir að eftir því sem virkjunum fjölgaði hafi minnkað þörf á varaaflstöð og um 1980 var rekstri hennar hætt. Um tíma var rekið þarna frumkvöðlasetur en engin starfsemi hefur verið í húsinu undanfarin ár.

„Um aldamótin kannaði Landsvirkjun möguleikann á nýjum höfuðstöðvum við Rafstöðvarveg 4, en á þeim tíma hugðist Reykjavíkurborg rífa húsið. Þar sem Reykjavíkurborg hefur nú hætt við þau áform ákvað Landsvirkjun að kanna þennan möguleika betur.“