Lands­virkjun hefur samið við þýska vind­myllu­fram­leiðandann Enercon um kaup, upp­setningu og rekstur á 28 vind­myllum sem settar verða upp í Búr­fells­lundi við Vaðöldu.

Sam­kvæmt til­kynningu Lands­virkjunar verða fyrri 14 vind­myllurnar reistar snemma árs 2026 og gang­settar seinna um árið.

Reiknað er með að vindorku­verið verði að fullu til­búið og komið í rekstur fyrir lok ársins 2027.

„Út­boðs­gögnin og öll vinna við út­boðs­feril og samninga­gerð var unnin með ráðgjöfum Lands­virkjunar, dönsku lög­fræði­skrif­stofunni Kromann Reu­mer­t og alþjóð­legu verk­fræði­stofunni Afry. Öll nauð­syn­leg leyfi lágu fyrir í október sl. Þrír fram­leiðendur tóku þátt í út­boðs­ferlinu. Enercon GmbH átti hag­kvæmasta til­boðið, 140 milljónir evra sem eru rúmir 20 milljarðar,“ segir í til­kynningu Lands­virkjunar.

Sam­kvæmt Lands­virkjun hefur Enercon mikla reynslu af upp­byggingu og rekstri vind­mylla hér á landi því fyrir­tækið fram­leiddi vind­myllurnar sem Lands­virkjun hefur rekið í til­rauna­skyni á Hafinu frá 2013, auk þess sem vind­myllur í Þykkva­bæ eru frá Enercon komnar.

Í samningi Lands­virkjunar og Enercon felst hönnun, fram­leiðsla, flutningur, upp­setning og prófanir á 28 vind­myllum.

„Þegar vindorku­verið er full­búið tekur við þjónustu­samningur til í það minnsta 15 ára. Áður en til kasta Enercon kemur verður lokið við vega­gerð á svæðinu við Vaðöldu, auk þess sem byggja þarf vind­mylluplön, smíða undir­stöður undir vind­myllurnar o.fl. Sú mann­virkja­gerð hefst á næsta ári, en stefnt er að út­boði þess verks fyrir lok ársins.“

Sam­hliða upp­byggingu vindorku­versins við Vaðöldu hyggst Lands­virkjun reisa þjónustu­byggingu fyrir vindorku­verið á Hellu.