Reykjavíkurborg bárust fimm tilboð í Toppstöðina, Rafstöðvarvegi 4 í Elliðaárdal, en frestur til að skila inn tilboðum rann út á miðvikudaginn síðasta, 14. ágúst. Greint er frá þessu í tilkynningu borgarinnar.

Landsvirkjun lagði inn hæsta tilboðið í Toppstöðina eða alsl um 725 milljónir króna líkt og greint var frá í gær. Landsvirkjun sér fyrir sér að flytja höfuðstöðvar sínar í Toppstöðina sem var í eigu félagsins á árum áður.

Eftirfarandi fimm tilboð bárust í Toppstöina:

  • Akstursíþróttafélag Íslands: Skipti á lóð
  • APT holdings ehf: 25 milljónir króna
  • Hilmar Ingimundarson: 420 milljónir króna
  • Iða ehf: 287,5 milljónir króna
  • Landsvirkjun: 725 milljónir króna

Borgarráð heimilaði í júní síðastliðnum að hefja söluferli á Toppstöðinni og efnt var til samkeppni þar sem fleiri þættir en kaupverð skyldu hafa áhrif við mat á tilboðum. Borgin tekur fram að hún áskilji sér rétt til að taka hvaða tilboði sem er eða hafna öllum tilboðum.

Toppstöðin er tæpir 6.500 fermetrar að stærð og er gildandi fasteignamat tæpar 775 milljónir króna.