Landsvirkjun hyggst kanna möguleikann á að færa höfuðstöðvar sínar. Þetta kemur fram í auglýsingu sem birtist í Viðskiptablaðinu, sem kom út í morgun, þar sem óskað er eftir upplýsingum um lóðir, laust húsnæði eða hvaða tækifæri bjóðast til samstarfs við lóðarhafa.

Höfuðstöðvar Landsvirkjunar eru að Háaleitisbraut 68 í Reykjavík en eins og greint hefur verið frá í fjölmiðlum herjar mygla á umrætt húsnæði. Sökum þessa hefur félagið neyðst til að leigja skrifstofuhúsnæði á nokkrum mismunandi stöðum í borginni undir starfsfólk sitt. Áður en myglan uppgötvaðist hýstu núverandi höfuðstöðvar um 180 starfsmenn.

Í auglýsingu Landsvikjunar segir að ef af flutningum verði þurfi nýjar höfuðstöðvar að vera 5-6 þúsund fermetrar á tveimur til fjórum hæðum. Þær þurfi jafnframt að „geta mætt breytilegum þörfum okkar til lengri og skemmri tíma“.

Óskar Landsvirkjun eftir að komast í samband við „öfluga og trausta fagaðila sem eiga lóðir eða húsnæði á höfuðborgarsvæðinu og gætu mætt húsnæðisþörfum okkar“. Bendir félagið áhugasömum á sérstakt vefsvæði sem búið er að koma upp með nánari upplýsingum og þeir beðnir um að svara fyrir 28. apríl.