Þórólfur Matthíasson, prófessor í hagfræði, segir of langt líða á milli kjarasamninga hér á landi. „Ef styttra liði á milli samninga þá myndi ekki safnast upp stór pakki af vandamálum sem þarf að leysa sem svo eru leyst í einhverri andarteppu á 28 tíma löngum samningafundi. Það er mikilvægt að komið verði betra skipulagi á þetta hér á landi," segir Þórólfur.
Mikil óvissa ríkir í aðdraganda kjarasamninga en verðbólga um allan heim hækkar og ekki sér fyrir endann á henni í náinni framtíð. Hlutfallið á milli launa og launatengdra gjalda og vergra þáttatekna hefur haldist nokkuð stöðugt á sama tímabili og stendur nú í 61%. Samkvæmt Peningamálum Seðlabanka Íslands, sem kom út í febrúar á þessu ári, er ekki gert ráð fyrir því að framleiðni muni aukast að ráði á næstu árum.
Að sögn Þórólfs þrengir utanaðkomandi verðbólga stöðuna talsvert. Ef framleiðnin eykst á sama tíma og verð hækka erlendis frá þá þýðir það að flytja þurfi kaupmátt frá útflytjendum til almennings. „Það er ekki endilega þjóðhagslega best að semja um hærri laun í þessum atvinnugreinum. Þá væri komin upp sú staða að laun væru mjög misjöfn og hugsanlega væri verið að halda lífi í atvinnugreinum sem eru með mjög lága framleiðni. Með því að jafna launin sé verið að setja sömu kröfu um framleiðni á allar atvinnugreinar."
Þórólfur segir okkar vanda liggja í því að á meðal okkar lágframleiðnigreina sé ferðamannaiðnaðurinn. „Lausnin við þeim vanda felst í rauninni í því hvernig við viljum að hagkerfi Íslands líti út í framtíðinni. Við stöndum frammi fyrir vali um hvort við viljum hafa hagkerfið frekar tvískipt, þar sem við erum með lágframleiðni í stórum útflutningsgreinum og háframleiðni í þjónustu við atvinnulífið og í öðrum útflutningsgreinum sem eru meira tækni- og tölvumiðaðar. Ef við erum ekki tilbúin í slíka stéttaskiptingu og ójöfnuð í samfélaginu þá þurfum við hugsanlega að leggja minni áherslu á ferðamannaiðnaðinn til þess að skapa rými fyrir háframleiðniatvinnugreinar.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu . Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .