Stórir langtímafjárfestar og lífeyrissjóðir, með samtals 1,5 billjónir (e. trillion) dollara í stýringu, hafa sent eignastýringarfyrirtækjum áminningu um að þau þurfi að bregðast við loftslagsáhættu eða fara á mis við langtímahagsmuni fjárfestanna.

Samkvæmt Financial Times er þetta merki um vaxandi klofning í eignastýringariðnaðinum um hvernig sé best að takast á við fjárhagslega áhættu af völdum hlýnunar jarðar.

Hópur 26 stofnana og lífeyrissjóða frá Ástralíu til Bandaríkjanna, þar á meðal Scottish Widows, People’s Partnership og Brunel Pension Partnership, hafa kallað eftir því að eignastýringarfyrirtæki þeirra taki virkan þátt í því að ræða loftslagsáhættu við fyrirtækin sem þau hafa fjárfest í.

Um er að ræða meðal annars lífeyrissjóði sem hafa verið virkir í að tala um að loftslagsbreytingum fylgi langtímafjárhagsleg áhætta þar sem þeir þurfa að tryggja útgreiðslur í áratugi.

Að þeirra sögn eru loftslagsbreytingar ekki bara umhverfisvandamál heldur líka fjárhagsleg ógn fyrir langtímasjóði.

„Við erum langtímasjóðir. Fjárhagsleg rök fyrir loftslagsbreytingum eru mun sterkari en skammtíma-pólitískir vandar,“ segir Leanne Clements, forstöðumaður ábyrgrar fjárfestingar hjá People’s Partnership.

Clements bendir m.a. á mikilvægi þess að eignastýringarfélögin haldi áfram á þeirri braut sem samræmist langtímahagsmunum þeirra, sérstaklega þegar um er að ræða loftslagsáhættu og sjálfbærni.

Þessi áhersla á langtímaáhættu hefur leitt til nýrra krafna sem hópurinn hefur sett fram gagnvart eignastýringarfyrirtækjum.

Ef eignastýringarfyrirtæki sýna vanrækslu eða fylgja stefnu sem ekki er í samræmi við langtímahagsmuni mun það leiða til endurskoðunar á mati þeirra og hugsanlega breytinga á þeim samstarfsaðilum sem valdir verða fyrir fjárfestingarnar.

Hópurinn krefst þess að eignastýringarfyrirtæki tryggi að þau hafi nægileg úrræði til að fylgjast með áhrifum loftslagsmála og bæti viðeigandi stjórnun (stewardship) til að tryggja sjálfbærni í fjárfestingum sínum.

Auk þess hefur hópurinn farið fram á að eignastýringarfyrirtæki nýti fullan rétt sinn til að greiða atkvæði á hluthafafundum með það að markmiði að styrkja sjálfbærni í viðkomandi fyrirtækjum, sérstaklega þar sem um er að ræða fyrirtæki sem tengjast olíu- og gasiðnaði.

Rannsóknir hafa bent til þess að nokkur af stærstu eignastýringarfyrirtækjunum hafi sýnt ólík viðhorf í þessum málum, sem skapar möguleika á misræmi milli langtímahagsmuna lífeyrissjóða og aðgerða fyrirtækjanna.

Þessi þróun undirstrikar áhyggjur langtímafjárfesta um það hversu vel eignastýringarfyrirtæki bregðast við loftslagsáhættu og hversu mikilvæg langtímastefna þeirra verður fyrir framtíð fjárfestinganna, bæði á fjárhagslegum og umhverfislegum grundvelli.