Alþjóðlega lánshæfismatsfyrirtækið S&P Global Ratings tilkynnti í dag að lánshæfismat Landsbankans til langs tíma hefði verið hækkað úr BBB+ í A-. Lánshæfismatið hefur ekki verið hærra frá árinu 2014, þegar S&P hóf að veita bankanum lánshæfiseinkunnir.

Í tilkynningu Landsbankans kemur fram að hækkun lánshæfismatsins sé á grundvelli aukins viðnámsþróttar (e. additional loss absorbing capacity, ALAC). Enn fremur hafi lánshæfiseinkunnir fyrir skuldir sem njóta verndar í skilameðferð (e. resolution counterparty ratings, RCR) til lengri og skemmri tíma verið hækkaðar úr A-/A-2 í A/A-1.

„Í rökstuðningi sínum vísar S&P til stöðu skulda bankans með aukinni tapgleypni (e. ALAC buffer) í kjölfar útgáfu víkjandi forgangsskuldabréfa þar sem bankinn sýndi fram á traust markaðsaðgengi.

S&P gerir ráð fyrir að Landsbankinn muni viðhalda hlutfalli ALAC-hæfra skulda yfir 4% viðmiði og S&P áhættuvegnu eiginfjárhlutfalli (e. risk adjusted capital ratio, RAC) yfir 15% næstu tvö árin, ásamt því að viðhalda sterkri stöðu, góðri tekjuöflun og traustum eignagæðum.“

„Við erum hæstánægð með hækkun á lánshæfiseinkunn Landsbankans upp í A-flokk hjá S&P Global Ratings. Lánshæfiseinkunn er til marks um traustan rekstur og gott aðgengi bankans að innlendum og erlendum fjármagnsmörkuðum,“ segir Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans.

„Undanfarin ár hefur Landsbankinn unnið markvisst að því að auka hagkvæmni fjármagnsskipunar bankans og mæta auknum kröfum í regluverki kerfislega mikilvægra fjármálafyrirtækja. Við höfum meðal annars gefið út eiginfjárgerninga sem telja til viðbótar eiginfjárþáttar 1 og nú síðast gáfum við út víkjandi forgangsbréf í erlendri mynt. Bankinn er vel fjármagnaður erlendis og innanlands og í sterkri stöðu til að styðja við sína viðskiptavini.“