EFTA-dómstóllinn birti í morgun ráðgefandi álit sitt í vaxtamálunum svokallaða en í niðurstöðu dómsins í málinu sem Neytendastofa rekur gegn Íslandsbanka, segir að lánveitendur á Íslandi þurfi skýra skilmála lána á breytilegum vöxtum betur.

Mál Neytendastofu gegn Íslandsbanka er nú fyrir Landsrétti og snýr það að því að upplýsingagjöf til neytenda sé nægilega góð.

Héraðsdómur Reykjavíkur, Héraðsdómur Reykjaness og Landsréttur vísuðu spurningum til EFTA-dómstólsins vegna mála sem lántakendur reka gegn Landsbankanum og Íslandsbanka.

Sjö spurningar voru lagðar fyrir dóminn í máli Neytendastofu gegn Íslandsbanka sem snúa allar að túlkun 5. gr. tilskipunar 2008/48/EB um neytendavernd.

Íslandsbanki var sýknaður af kröfum Neytendastofu í héraði en ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins verður nú hluti af málinu fyrir Landsrétti en það er einungis ráðgefandi fyrir íslenska dómstóla.

Um er að ræða á­lita­efni eins og hvort túlka eigi til­skipunina með þeim hætti að lán­veitandi verði að út­lista með tæmandi hætti, bæði á hinu staðlaða SECCI-eyðu­blaði og í láns­samningnum, skil­yrðin sem liggja því til grund­vallar að hann á­kveði að breyta út­láns­vöxtum láns með breyti­legum vöxtum, svo dæmi séu tekin.

EFTA-dóm­stóllinn kemst að þeirri niður­stöðu m. a. að túlka eigi til­skipunina með þeim hætti að að lán­veitanda beri að út­lista með tæmandi talningu, bæði á stöðluðu eyðu­blaði með stöðluðum upp­lýsingum um evrópsk neyt­enda­lán (SECCI) og í láns­samningnum, þau skil­yrði sem á­kvörðun hans um að breyta vöxtum láns með breyti­legum vöxtum byggist á.

Þá eru kröfurnar um upp­lýsinga­gjöf sam­kvæmt til­skipuninni ekki upp­fylltar hérlendis ef al­menna til­vísun til ó­fyrir­séðrar hækkunar á kostnaði lán­veitanda eða annarra skil­yrða sem lán­veitanda er ó­kunnugt um er að finna meðal skil­yrðanna fyrir breytingu út­láns­vaxta sem koma fram á hinu staðlaða SECCI-eyðu­blaði og í láns­samningnum.

Óheimilt að segja „o.s.frv.“ í skilmálum

Segir dóm­stóllinn einnig að skil­yrði til­skipunarinnar að neytandi fái nauð­syn­legar upp­lýsingar til að geta borið saman ólík til­boð og tekið upp­lýsta á­kvörðun um það hvort gera skuli láns­samning sé ekki full­nægt ef orða­lag á­kvæðis á stöðluðu eyðu­blaði felur í sér al­mennar og opnar til­vísanir svo sem „o. s. frv.“ ef skortir á full­nægjandi upp­lýsingar um sam­hengi.

Lán­veit­endur skuli jafn­framt á stöðluðu eyðu­blaði út­skýra hina ár­legu hlut­falls­tölu kostnaðar með lýsandi dæmi þar sem fram koma allar for­sendur sem notaðar eru við út­reikning á hlut­falls­tölunni „jafn­vel þótt allir þættir þess láns sem neytandi hyggst taka liggi fyrir. Í slíkum til­vikum ber lán­veitanda að taka til­lit til þekktra þátta við fram­setningu dæmisins”

Þá er gerð krafa um að á­vallt beri að taka fram „annan kostnað vegna lána­samningsins“, bæði á stöðluðu SECCI-eyðu­blaði og í láns­samningnum, án til­lits til þess hvort um er að ræða lán á því formi að bæði greiðslu­færslur og nýting lána séu skráð.

Að mati EFTA- dóm­stólsins er einnig gerð krafa um að allar upp­lýsingar um kostnað vegna láns­samnings, á­samt skil­yrðum fyrir breytingum á þeim – 26 – kostnaði, sem nauð­syn­legar eru til að gera neytandanum kleift að bera saman mis­munandi til­boð og gera sér í raun og veru grein fyrir öllum réttindum sínum og skyldum sam­kvæmt láns­samningnum.

„Gerð er sú krafa [...] að þegar kostnaður vegna láns­samnings, á­samt skil­yrðum fyrir því að sá kostnaður geti breyst, eru ekki tekin fram í láns­samningnum sjálfum verði í honum að til­greina kostnaðinn sem við á og að hann geti breyst, á­samt skýrri og ná­kvæmri vísun í annað efni á pappírs­formi eða öðrum varan­legum miðlum sem hefur að geyma nánari upp­lýsingar um þá þætti.”

Þá þarf hið staðlaða SECCI-eyðu­blað að hafa að geyma allar upp­lýsingar um kostnað sem greiða þurfi vegna van­skila, á­samt skil­yrðum fyrir breytingu á honum, sem nauð­syn­legar séu til að gera neytandanum kleift að bera saman mis­munandi til­boð og gera sér raun­veru­lega grein fyrir réttindum sínum og skyldum sam­kvæmt láns­samningnum.