EFTA-dómstóllinn birti í morgun ráðgefandi álit sitt í vaxtamálunum svokallaða en í niðurstöðu dómsins í málinu sem Neytendastofa rekur gegn Íslandsbanka, segir að lánveitendur á Íslandi þurfi skýra skilmála lána á breytilegum vöxtum betur.
Mál Neytendastofu gegn Íslandsbanka er nú fyrir Landsrétti og snýr það að því að upplýsingagjöf til neytenda sé nægilega góð.
Héraðsdómur Reykjavíkur, Héraðsdómur Reykjaness og Landsréttur vísuðu spurningum til EFTA-dómstólsins vegna mála sem lántakendur reka gegn Landsbankanum og Íslandsbanka.
Sjö spurningar voru lagðar fyrir dóminn í máli Neytendastofu gegn Íslandsbanka sem snúa allar að túlkun 5. gr. tilskipunar 2008/48/EB um neytendavernd.
Íslandsbanki var sýknaður af kröfum Neytendastofu í héraði en ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins verður nú hluti af málinu fyrir Landsrétti en það er einungis ráðgefandi fyrir íslenska dómstóla.
Um er að ræða álitaefni eins og hvort túlka eigi tilskipunina með þeim hætti að lánveitandi verði að útlista með tæmandi hætti, bæði á hinu staðlaða SECCI-eyðublaði og í lánssamningnum, skilyrðin sem liggja því til grundvallar að hann ákveði að breyta útlánsvöxtum láns með breytilegum vöxtum, svo dæmi séu tekin.
EFTA-dómstóllinn kemst að þeirri niðurstöðu m. a. að túlka eigi tilskipunina með þeim hætti að að lánveitanda beri að útlista með tæmandi talningu, bæði á stöðluðu eyðublaði með stöðluðum upplýsingum um evrópsk neytendalán (SECCI) og í lánssamningnum, þau skilyrði sem ákvörðun hans um að breyta vöxtum láns með breytilegum vöxtum byggist á.
Þá eru kröfurnar um upplýsingagjöf samkvæmt tilskipuninni ekki uppfylltar hérlendis ef almenna tilvísun til ófyrirséðrar hækkunar á kostnaði lánveitanda eða annarra skilyrða sem lánveitanda er ókunnugt um er að finna meðal skilyrðanna fyrir breytingu útlánsvaxta sem koma fram á hinu staðlaða SECCI-eyðublaði og í lánssamningnum.
Óheimilt að segja „o.s.frv.“ í skilmálum
Segir dómstóllinn einnig að skilyrði tilskipunarinnar að neytandi fái nauðsynlegar upplýsingar til að geta borið saman ólík tilboð og tekið upplýsta ákvörðun um það hvort gera skuli lánssamning sé ekki fullnægt ef orðalag ákvæðis á stöðluðu eyðublaði felur í sér almennar og opnar tilvísanir svo sem „o. s. frv.“ ef skortir á fullnægjandi upplýsingar um samhengi.
Lánveitendur skuli jafnframt á stöðluðu eyðublaði útskýra hina árlegu hlutfallstölu kostnaðar með lýsandi dæmi þar sem fram koma allar forsendur sem notaðar eru við útreikning á hlutfallstölunni „jafnvel þótt allir þættir þess láns sem neytandi hyggst taka liggi fyrir. Í slíkum tilvikum ber lánveitanda að taka tillit til þekktra þátta við framsetningu dæmisins”
Þá er gerð krafa um að ávallt beri að taka fram „annan kostnað vegna lánasamningsins“, bæði á stöðluðu SECCI-eyðublaði og í lánssamningnum, án tillits til þess hvort um er að ræða lán á því formi að bæði greiðslufærslur og nýting lána séu skráð.
Að mati EFTA- dómstólsins er einnig gerð krafa um að allar upplýsingar um kostnað vegna lánssamnings, ásamt skilyrðum fyrir breytingum á þeim – 26 – kostnaði, sem nauðsynlegar eru til að gera neytandanum kleift að bera saman mismunandi tilboð og gera sér í raun og veru grein fyrir öllum réttindum sínum og skyldum samkvæmt lánssamningnum.
„Gerð er sú krafa [...] að þegar kostnaður vegna lánssamnings, ásamt skilyrðum fyrir því að sá kostnaður geti breyst, eru ekki tekin fram í lánssamningnum sjálfum verði í honum að tilgreina kostnaðinn sem við á og að hann geti breyst, ásamt skýrri og nákvæmri vísun í annað efni á pappírsformi eða öðrum varanlegum miðlum sem hefur að geyma nánari upplýsingar um þá þætti.”
Þá þarf hið staðlaða SECCI-eyðublað að hafa að geyma allar upplýsingar um kostnað sem greiða þurfi vegna vanskila, ásamt skilyrðum fyrir breytingu á honum, sem nauðsynlegar séu til að gera neytandanum kleift að bera saman mismunandi tilboð og gera sér raunverulega grein fyrir réttindum sínum og skyldum samkvæmt lánssamningnum.