Lárus Welding, rekstrarstjóri Stoða og fyrrum bankastjóri Glitnis, lýsti yfir áhyggjum sínum af hörðum stýrivaxtahækkunum Seðlabankans í nýjasta hlaðvarpsþætti Chess after Dark. Hann óttast að Seðlabankinn hugsi ekki nægjanlega mikið til lengri tíma þróunar.

„Okkur finnst [peningastefnunefndin] hafa verið alltof fljót að leyfa þessum hlutum að koma í gegn. Okkur finnst þau hafa keyrt vextina alltof hratt upp,“ segir hann og vísar til þess tíma sem það tekur áhrif stýrivaxtahækkana að koma fram að fullu.

Lárus var spurður út í orð Jóns Sigurðssonar, forstjóra Stoða, í bréfi til hluthafa fjárfestingarfélagsins í byrjun árs þar sem Seðlabankinn var sagður hafa verið í fararbroddi að tala upp verðbólguvæntingar og niður gengi krónunnar. Þá hafi verðbólguspár bankans gefið til kynna að hann hafi enga trú á eigin getu til að ná verðbólgu niður.

„Ég held ég geti bara svarað því að það er mjög fátt sem ég og Jón Sigurðsson erum ósammála um. Ég er 100% sammála honum,“ segir Lárus.

„Ef einhver fyrirtæki þurfa að taka lán til einhverra fjárfestinga, í landi eins og Íslandi, þar sem það verður að fjárfesta til að halda framleiðni uppi af því að við erum með svo há laun, þá náttúrulega erum við að fara að bremsa ansi skarpt þegar það kostar 12-13% að fá lán til þess að gera eitthvað.“

Eina landið með fasteignaverð í vísitölunni

Peningastefnunefnd Seðlabankans hefur hækkað stýrivexti úr 0,75% í 8,75% á rúmum tveimur árum. Næsta vaxtaákvörðun bankans er á miðvikudaginn í næstu viku, 23. ágúst. Lárus lítur svo á að vaxtahækkununum hafi einkum verið ætlað að kæla niður fasteignamarkaðinn.

„Við erum náttúrulega eina landið í heiminum sem er enn þá með fasteignaverðið sjálft í vísitölunni. Það væri kannski hægt að skoða að taka það út.“

Lárus segir að þótt lágt vaxtastig kunni að hafa gert fleirum kleift að kaupa húsnæði og ýtt þannig undir eftirspurn með tilheyrandi áhrifum á fasteignaverð þá verði líka að horfast í augu við mikla fólksfjölgun hér á landi.

„Þetta er bara eftirspurnarvandamál, það er ekki framboð af fasteignum. Manni fannst eins og að langtímahugsunin í þessu væri ekki alveg nógu góð, að keyra þetta svona hratt upp. En vonandi verða vextir bara lækkaðir hratt aftur fyrst það er hægt að hækka þá svona hratt.“

Hefði mátt tipla á bremsunum frekar en að nauðhemla

Lárus, sem er stjórnarformaður byggingarfélagsins Þingvangs, var spurður nánar út í stöðuna á íslenska fasteignamarkaðnum og hvort hann óttist samdrátt í íbúðauppbyggingu, líkt og Samtök iðnaðarins hafa varað við.

„Já við höfum áhyggjur af því. Það var þessi lóðaskortur sem varð til í Reykjavík. Síðan ertu bara kominn líka í það að ef að fjármagnið er farið að kosta svona mikið þá er mjög erfitt að taka þá ákvörðun um að byrja að byggja, vitandi að fjármagnskostnaðurinn er kominn yfir 10%.“

Lárus segir að færri aðilum í byggingariðnaðinum muni gefast kostur á að hefja ný verkefni „af því að það eru augljóslega meiri eiginfjárkröfur frá bönkunum af því að einhvern veginn þarf fjárstreymið að ganga upp“. Auk þess muni aukinn fjármagnskostnaður á endanum þurfa að koma fram í fasteignaverðinu sjálfu.

Hann segist almennt ekki tala fyrir sérúrræðum en telur að Seðlabankinn og stjórnvöld þurfi að huga að því að hækkandi fjármagnskostnaður leiði ekki til verulegs samdráttar í íbúðauppbyggingu.

„Ég get ímyndað mér að allt þetta klára fólk eigi að geta fundið einhverja aðra lausn til þess að allavega halda fjármögnuninni gangandi þannig að pípan muni ekki stoppa. Ég held að hún hafi stoppað töluvert. Það eru fullt af verktökum sem munu bara ekki ráða við þetta. Bankarnir munu augljóslega segja „planið þitt bara gengur ekki upp, núna eru vextirnir orðnir þetta háir. Við getum ekki bara haldið áfram að lána þér“.“

Lárus segir það jákvæða í stöðunni vera að hagvaxtarhorfur á Íslandi séu góðar og fólksfjölgun hér á landi sé jákvæð í þeim efnum. Þá sé mikið af landi á Stór-Reykjavíkursvæðinu sem hægt er að brjóta undir nýja byggð.

„Við þurfum einhverja betri langtímahugsun í þessu. Ég er ekkert að segjast vera með lausnina en ég held að við hefðum mátt tipla meira á bremsurnar frekar en að alveg nauðhemla og taka í handbremsuna eins og þessir vextir gerðu.“

Lárus talar um vaxtahækkanir og fasteignamarkaðinn frá 1:21:22-1:26:35.