Vogunarsjóðurinn Contrarian Macro Fund í New York skilaði 163% ávöxtun árið 2022, fyrsta heila rekstrarári sínu. Eins og nafnið gefur til kynna byggir fjárfestingarstefna sjóðsins á að veðja gegn markaðnum en stofnendur hans töldu fullvíst að seðlabankar heims þyrftu að taka algjöra stefnubreytingu. Bloomberg greinir frá.

Contrarian sjóðurinn var stofnaður í apríl 2021 af Neal Berge sem hafði stýrt sjóðasjóðnum Eagle’s View Capital Management í 16 ár. Eagle‘s View er með um 700 milljónir dala í stýringu, þar af um 200 milljónir dala, eða um 29 milljarða króna, í Contrarian sjóðnum.

„Ástæðan fyrir því að ég stofnaði sjóðinn var að seðlabankar þurftu að fara taka 180 gráðu stefnubreytingu. Helsta afleiðing þess er mótbyr á öllu eignaverði,“ segir Berger við Bloomberg. Hann bætir við að eignaverð á þessum tíma hafi verið sturlað.

Berger segist hafa notað framvirka samninga til að taka skortstöðu á bæði hluta- og skuldabréfamörkuðum. Hann taldi markaði vera komna á villigötur eftir nokkur ár af lágvaxtastefnu og peningalegri örvun seðlabanka.

„19 þúsund milljarðar dala af þjóðarskuldum með neikvæðri kröfu, SPAC-bylgjan, rafmyntaæðið og verðmöt, bæði á óskráðum og skráðum félögum – þetta eru allt rendur á sama sebrahestinum,“ segir Berger. „Sebrahesturinn er þá ógrynni af lausafjármagni, fyrst í kjölfar fjármálakrísunnar og síðan í Covid.“

Contrarian sjóðurinn fjárfestir einkum í afleiðum tengdum bandarískum og evrópskum eignum. Sjóðurinn tók einnig stöðu gegn japönskum skuldabréfum og veðjaði á að jenið myndi styrkjast eftir að Seðlabanki Japans víkkaði vikmörkin á ávöxtunarferilsstefnu sinni í síðasta mánuði.

Berger segist ætla að halda skortstöðu sinni í nokkur ár. Markaðir eigi enn eftir að finna fyrir meiri sársauka. „Þú ert með sveiflur, bæði innan dags og á milli mánaða. En sé horft vítt yfir sviðið, þá á allt eftir að lækka. Verðgreining (e. price action) er þegar allt kemur til alls biblían.“