Viðskiptablaðið sló á þráðinn til nokkurra aðila á fjármálamarkaði og spurðist fyrir um viðhorf þeirra gagnvart markaðnum.
Allir viðmælendur á fjármálamarkaði sem Viðskiptablaðið sló á þráðinn til eru sammála um að ákveðin lognmolla ríki á hlutabréfamörkuðum þessi dægrin.
Vaxtahækkanir, innrás Rússlands í Úkraínu og síhækkandi verðbólga hafi óhjákvæmilega haft áhrif á hlutabréfaverð, ekki síst þeirra félaga sem bæst hafa í Kauphallarflóruna síðustu misseri, en þar ber helst að nefna Play, sem er mjög viðkvæmt fyrir ytri áföllum.
Allir gátu þeir hins vegar vel ímyndað sér að markaðurinn – og þar með stemningin fyrir fleiri skráningum – gæti farið að hressast með haustinu, þó sumir væru bjartsýnni á það en aðrir.
Sjá einnig: Skráningaræðið komið til að vera
Áhugaleysi stórra fjárfesta á Nova-útboðinu segja þeir helst mega rekja til of hás verðlags. Gengið var 5,11 og var það sama í A- og B-bók þegar upp var staðið, en heimild hafði verið fyrir hærra verði í B-bókinni þætti tilefni til.
Þótti þeim eðlilegra, þó ekki væri það algilt, að verðleggja A-bókina örlítið lægra en B-bókina til að ná fjöldanum inn. Þá var jafnframt tekin ákvörðun um að stækka útboðið um 20% til að mæta þeim áhuga sem var eftir bréfum í A-bók. Þótti það óskynsamleg ákvörðun þar sem félagið hafi þegar átt í erfiðleikum með B-bókina.
Við samanburð á útboðum er mikilvægt að hafa í huga að aðstæður eru mismunandi á hverjum tíma. Fjögur útboð áttu sér stað síðasta sumar og tvö þetta sumar. Af þeim fjórum félögum sem voru skráð á markað síðasta sumar hækkuðu þrjú á fyrsta viðskiptadegi.
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.