Eigendur matvöruverslana í Bretlandi munu sitja fyrir svörum breskra þingmanna í dag um það hvers vegna matvöruverð í landinu haldi áfram að hækka þegar heildsölukostnaður þeirra fer lækkandi.
Talsmenn Tesco, Sainsbury‘s, Asda og Morrisons munu standa frammi fyrir þingnefnd en þær eru stærstu matvöruverslanir Bretlands.
Matarverðbólga í Bretlandi mældist 14,6% í júní, sem er töluverð lækkun frá því í maí þegar hún stóð í 18,7%. Þingmenn kenna hins vegar háu matvöruverði í landinu um áframhaldandi verðbólgu.
Talsmenn þessara matvöruverslana verða í dag spurðir hvort búast megi við verðlækkunum á þessu ári en stjórnmálamenn, verkalýðsleiðtogar og jafnvel seðlabankastjóri Englands hafa allir undrað sig á því hvers vegna hilluverðin hafi ekki lækkað í samræmi við lækkandi hráefniskostnað eins og hveiti.
„Verslanirnar fá ekki ný verð fyrr en þær fá nýja samninga"
Samkeppnis- og markaðseftirlit Bretlands rannsakar nú hvort matvöruverslanir séu að viðhalda háu verðlagi til að græða meira á viðskiptavinum. Þessu hafa verslanirnar neitað og segja að lækkun á hráefniskostnaði taki einfaldlega tíma að skila sér til neytenda.
Nokkrar verslanir á borð við Tesco, Aldi og Lidl hafa undanfarna mánuði lækkað verð á brauði, mjólk og smjöri en verð á öðrum vörum eins og eggjum hafa hins vegar ekki lækkað.
Ged Futter, smásölusérfræðingur og fyrrverandi innkaupastjóri hjá Asda, segir líklegt að eigendur þessara verslana muni halda því fram að hrávöruverð hafi ekki lækkað alls staðar en verð á sykri, kartöflum og súkkulaði hafa öll hækkað. Þar að auki eru verslanir enn til að mynda að kaupa hveiti frá uppskeru síðasta árs á gömlu verði.
„Verslanirnar fá ekki ný verð fyrr en þær fá nýja samninga. Verðin byrja ekki strax að lækka hér bara vegna þess að þau byrja að lækka á heimsmarkaði,“ segir Ged.
Viðskiptablaðið fór ítarlega í matarverðbólguna í Evrópu í síðustu viku en Ísland sker sig nokkuð út þegar kemur að henni því talsvert minni munur er á matarverðbólgu og almennri verðbólgu á Íslandi í samanburði við helstu viðskiptalönd. Á Íslandi mældist matarverðbólgan 12,3% í maí á sama tíma og verðbólga mældist 9,5%.
Þórður Gunnarsson hagfræðingur segir orkukreppuna í Evrópu eiga stóran þátt í því að matvælaverð hafi hækkað langt umfram almennt verðlag. Ólíkt öllum öðrum löndum í Evrópu hafi raforkuverð á Íslandi ekki hækkað, og því fylgdi matvælaverð ekki sömu þróun hérlendis og erlendis.