Bandaríska flugfélagið United Airlines hefur samið við flugmenn sína um 34,5-40% launahækkun en flugfélög í Bandaríkjunum hafa undanfarið glímt við mikinn skort á flugmönnum.
Samningurinn er sagður undirstrika þá miklu uppsveiflu sem er að eiga sér stað hjá flugfélögum en verkalýðsfélög Delta Airlines og American Airlines hafa einnig gert svipaða samninga við sína flugmenn.
Scott Kirby, framkvæmdastjóri United Airlines, segir að samningurinn komi til með að skila mikilvægri launahækkun og bæta lífsgæði en á sama tíma auðvelda vöxt félagsins.
Samningurinn felur í sér breytingar á vinnureglum sem mun gefa flugmönnum meiri stjórn yfir eigin vinnutíma. Flugmenn munu einnig fá 13,8% til 18,7% launahækkanir sem halda svo áfram að hækka næstu árin. Byrjunarlaun flugmanna verða því í kringum 100 þúsund dalir á ári fyrir nýráðinn flugmann til allt að 400 þúsund dalir fyrir háttsettan flugstjóra.
Methagnaður hefur verið meðal flugfélaga eftir þá miklu eftirspurn sem myndaðist eftir heimsfaraldur en flugfélögin hafa ekki náð að anna alla þá eftirspurn. Mikill fjöldi flugmanna sögðu upp vinnu þegar heimsfaraldur skall á og glíma nú flugfélögin við að fylla upp í þær stöður.
Flugmenn hjá Southwest Airlines hafa einnig verið í kjaraviðræðum við sitt flugfélag en þær viðræður slitnuðu í síðasta mánuði og er nú útlit fyrir að flugmenn Southwest fari í verkfall á næstunni.