Launavísitalan hefur hækkað um 8,5% síðustu 12 mánuði, en það er mun hærri árstaktur en hefur verið síðustu mánuði. Launavísitalan hækkaði jafnframt um 1,6% milli mars og apríl, sem er óvenjumikil hækkun. Þetta kemur fram í hagsjá Hagfræðideildar Landsbankans, sem unnin er upp úr tölum Hagstofu Íslands.
Í hagsjánni segir að meginskýring launahækkunar á milli mánaða sé hagvaxtaraukinn, sem að hluta til var greiddur út í apríl. Verðbólgan í apríl mældist 7,2% og því jókst kaupmáttur launa um 1,2% á milli ára í aprílmánuði síðastliðnum.
Kaupmáttur í apríl var þó 1,2% lægri en í janúar 2022 þegar hann var sá mesti í sögunni. Mikil verðbólga síðustu mánuði hefur þannig minnkað kaupmáttinn.
Í hagsjánni segir jafnframt að gert sé ráð fyrir einungis 0,1% kaupmáttaraukningu á milli ára, þar sem verðbólga verði að jafnaði 7,4% og hækkun launavísitölu 7,5%.
Launabilið minnkar
Það vekur athygli að þegar horft er til tímabilsins febrúar 2021 – febrúar 2022 sést að laun hafa hækkað með svipuðum hætti á almenna markaðnum og í opinbera geiranum. Þannig hafa laun á almenna vinnumarkaðnum hækkað um 7,1%, en laun hjá hinu opinbera um 7,2%.
Launabilið á milli almenna vinnumarkaðarins og hins opinbera hefur því minnkað töluvert, en bilið var óvenju mikið í upphafi árs 2021. Frá árinu 2015 hefur hækkun launa þó verið meiri á opinbera markaðnum en á þeim almenna.
Laun verkafólks hafa jafnframt hækkað meira en laun annarra stétta á undanförnum misserum. Þessi þróun er í takt við markmið gildandi kjarasamninga þar sem krónutöluhækkanir á lægri launum gefa meiri prósentubreytingar en á þeim hærri, að því er kemur fram í hagsjánni.