Þór­hildur Ólöf Helga­dóttir for­stjóri póstsins sagði á Við­skipta­þingi í dag að lág­marks­laun hjá Póstinum hafi hækkað um 73,9% frá árinu 2017 ef stytting vinnu­vikunnar er tekin með í reikningin.

Pósturinn hefur unnið að því að snúa rekstrinum við síðast­liðinn ár en þróun verð­lags og þróun launa hefur gert það erfitt fyrir að sögn Þórhildar.

„Við skulduðum allt­of mikið. Við skulduðum þrjá milljarða og áttum ekki fyrir launum,“ segir Þór­hildur um stöðu Póstinn þegar hún tók við sem fjármálastjóri árið 2019 en núna er staðan allt önnur.

„Þetta var mjólkur­kú Póstsins“

Hún bendir á að pósturinn sé með póst­box um allt land en mannaðar af­greiðslu­stöðvar verða sí­fellt færri og færri. „Við erum með 40 í dag en ætlum ekki að vera með 40 á næsta ári,“ segir Þór­hildur.

„Um­hverfið er að þyngjast. Allur kostnaður er að hækka og við finnum öll fyrir því,“ sagði Þór­hildur og bætti við að sam­keppnin væri að aukast sam­hliða því að magn bréfa væri að dragast saman.

„Við erum með 85% minna magn af bréfum frá 2010. Þetta var mjólkur­kú Póstsins,“ sagði Þór­hildur og bendir á að sam­hliða því hafa pakkar og er­lendar sendingar aukist.

Starfsmönnum fækkað um 350 á fimm árum

Fjár­festingar hafa verið að koma rekstri Póstsins aftur á réttan kjöl að sögn Þórhildar. Það hefur leitt af sér að Pósturinn afgreiðir fimm sinnum fleiri pakka á klukkustund en áður. Þá hafi nýting gagna hjálpað mikið til en sem dæmi er Pósturinn byrjaður að tolla­af­greiða vörur áður en þær koma til landsins.

Hagræðing í rekstrinum hefur haft í för með sér að starfsmönnum Póstsins hefur fækkað um 350 manns frá 2019. Stöðu­gildum fækkaði um 41 á milli áranna 2022 til 2023.

Frá 2019 hefur Pósturinn greitt niður 2,3 milljarða króna skuld. „Sem betur fer skuldum við þetta ekki lengur,“ sagði Þór­hildur.

Svanhildur: „Nei, ríkið á ekki að eiga póstinn“

„Við hugsum á hverjum degi; hvernig getum við hag­rætt og hvernig getum þjónu­stað við­skipta­vininn betur,“ sagði Þór­hildur og bætti við að lokum í léttum tón að það væri ekki hennar að svara hvort ríkið ætti að eiga póstinn.

Svan­hildur Hólm Vals­dóttir, fram­kvæmda­stjóri Við­skipta­ráðs, svaraði fyrir hönd Þór­hildar að loknu erindinu. „Nei, ríkið á ekki að eiga póstinn.“

Svanhildur Hólm Valsdóttir á Viðskiptaþinginu sem stendur nú yfir.