Samkvæmt greiningu Landsbankans hafa laun hækkað langmest í veitinga- og gistigeiranum á síðustu árum og mest meðal verka- og þjónustufólks. Frá 2019 til 2023 hækkuðu laun í greinum tengdum veitinga- og gistirekstri um 54,9%.

Kaupmáttur hefur þá aukist um að meðaltali 10% á tímabilinu, en þróunin er ólík eftir hópum.

Frá 2019 hafa laun þjónustu-, sölu- og afgreiðslufólks hækkað um að meðaltali 48,5% og verkafólks um 48,2%. Laun stjórnenda hafa á sama tímabili hækkað um 27,4% og laun sérfræðinga um 33,4%.

Í greiningu segir að atvinnuleysi hafi minnkað hratt eftir að faraldrinum linnti og mælist nú 3,2%. Launavísitalan hefur þá hækkað um 10,9% á síðustu tólf mánuðum en hún hækkaði mest í desember eftir að kjarasamningar á stórum hluta vinnumarkaðarins voru samþykktir, svo aftur þó nokkuð í apríl og júní þegar gengið var frá fleiri kjarasamningum.

„Að meðaltali hefur kaupmáttur launa aukist um 10,1% á tímabilinu frá mars 2019 til september 2023. Vísitala neysluverðs hefur hækkað um 28% á tímabilinu og kaupmáttur aukist hjá nær öllum hópum, þó mjög lítið meðal sérfræðinga og rýrnað lítillega meðal stjórnenda.“