Samkvæmt greiningu Landsbankans hækkaði launavísitalan um 1,1% í júní og jókst kaupmáttur einnig sökum þess hve lítið verðlag hækkaði samhliða því. Atvinnuleysi hélt að auki áfram að dragast saman, enda árstíðabundin eftirspurn í mörgum atvinnugreinum.

Hækkun launavísitölu á ársgrundvelli nam 10,9% í júní en hækkaði um 1,1% á milli mánaða. Hækkunin skýrist sennilega að mestu af kjarasamningsbundnum hækkunum, en kjaraviðræður BSRB teygðust fram í júnímánuð.

Kaupmáttur jókst þar að auki um 0,3% í júní og var 1,8% meiri en á sama tíma í fyrra. Landsbankinn segir að stökkið skýrist aðallega af því að verðbólgan var mun minni í júní á þessu ári en í júní í fyrra. „Nú má þó búast við að hægi á hækkun launavísitölunnar þar til næstu kjarasamningar verða undirritaðir, líklega eftir aðeins örfáa mánuði,“ segir einnig í greiningunni.

Laun hækkuðu mest í veitinga- og gistigeiranum frá því apríl í fyrra til apríl á þessu ári, eða um 12,4%. Launin hækkuðu næst mest í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð, eða um 11,6%.

Í samræmi við það hækkuðu launin mest hjá verkafólki, eða um 11,7% og þeim sem starfa við þjónustu-, sölu- og afgreiðslustörf, eða um 11,6%.

Atvinnuleysi var þá 2,9% í júní, samanborið við 3,0% í maí en atvinnuleysi er almennt minnst á sumrin og hugsanlegt að áfram dragi úr því í júlí.

„Árstíðasveiflur skýrast meðal annars af auknum umsvifum ýmissa atvinnugreina á sumrin, ekki síst í ferðaþjónustu og byggingariðnaði. Það var einmitt í ferðaþjónustu sem atvinnulausum fækkaði mest í mánuðinum, en einnig þó nokkuð í verslun og vöruflutningum.“

Greiningin vitnar einnig í könnun Gallup sem segir að 43% stjórnenda fyrirtækja telja ekki vera nægt framboð af starfsfólki en um 57% telja framboðið nægilegt. Hlutfall eftirspurnar er hæst í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð en hefur lækkað um um það bil helming í samgöngum, flutningum og ferðaþjónustu.