Af 436 fyrirtækjum í fyrirtækjaskrá Skattsins, sem tekin voru til gjaldþrotaskipta á öðrum ársfjórðungi 2023, voru 103 með virkni á fyrra ári, ríflega fjórum sinnum fleiri en á sama tímabili árið 2022 þegar þau voru 24.
Samkvæmt tölum Hagstofunnar voru 36 þeirra í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð, 16 í heild- og smásöluverslun og viðgerðum á vélknúnum ökutækjum, 15 í einkennandi greinum ferðaþjónustu og 36 í öðrum atvinnugreinum.
Fram kemur að fyrirtæki sem tekin voru til gjaldþrotaskipta á öðrum ársfjórðungi 2023 höfðu að jafnaði um 579 launamenn árið áður sem er nærri fimmfalt fleira en á öðrum ársfjórðungi 2022 þegar launamenn gjaldþrota fyrirtækja á fyrra ári voru um 117.
Í samanburðinum bendir Hagstofan á að áhrif gjaldþrota á fjölda launafólks voru óvenju lítil frá miðju ári 2021 fram á haustið 2022. Launafólk gjaldþrota fyrirtækja á öðrum ársfjórðungi 2023 fjölgaði um 16,5% frá 2021 en fækkaði um 47% frá 2020 sem er ársfjórðungurinn sem markar upphaf kórónuveirufaraldursins.
Ef borið er saman við annan ársfjórðung 2019 nemur fækkunin 25%. Áhrif af gjaldþrotum virðast því heilt yfir ekki meiri nú en þau voru fyrir faraldurinn.