John David Rainey, fjármálastjóri Walmart, var tekjuhæsti fjármálastjóri skráðs félags í Bandaríkjunum í fyrra með hátt í 40 milljónir dala þegar laun, bónusar, hlutabréfatengdir kaupaukar og önnur hlunnindi eru tekin saman.

Aðeins brot af upphæðinni voru grunnlaun, eða um 700 þúsund dalir, en langstærsti hluti tekna hans voru tilkomnar vegna hlutabréfatengdra kaupauka.

Kelly Steeckelberg, fjármálastjóri Zoom, kom næst á eftir með tæplega 37 milljóna dala launapakka. Hún er eini fjármálastjórinn á lista yfir tíu tekjuhæstu fjármálastjórana sem starfar ekki hjá félagi sem er hluti af S&P 500 vísitölunni.

Meðal annarra fjármálastjóra sem eru á listanum eru fjármálastjórar Apple, Blackstone og Alphabet, móðurfélags Google.