Launakröfur knattspyrnumannsins Gylfa Þórs Sigurðssonar hljóðuðu alls upp á tvær milljónir króna á mánuði samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Heimildir blaðsins herma að haft hafi verið samband við Víking, KR og hugsanlega fleiri félög og þeim tjáð að Gylfi væri tilbúinn til að ganga til liðs við félögin ef gengið yrði að fyrrnefndum launakröfum.

Eins og greint var frá fyrr í dag hefur Gylfi gengið til liðs við Val. Viðskiptablaðið hefur ekki upplýsingar um hvort Valur hafi samþykkt launakröfur Gylfa.

Launakröfur knattspyrnumannsins Gylfa Þórs Sigurðssonar hljóðuðu alls upp á tvær milljónir króna á mánuði samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Heimildir blaðsins herma að haft hafi verið samband við Víking, KR og hugsanlega fleiri félög og þeim tjáð að Gylfi væri tilbúinn til að ganga til liðs við félögin ef gengið yrði að fyrrnefndum launakröfum.

Eins og greint var frá fyrr í dag hefur Gylfi gengið til liðs við Val. Viðskiptablaðið hefur ekki upplýsingar um hvort Valur hafi samþykkt launakröfur Gylfa.

Gylfi, sem er markahæsti leikmaður í sögu íslenska karlalandsliðsins, samdi við Valsmenn til tveggja ára og mun koma til með að leika með þeim í Bestu deildinni í sumar. Hann lék um árabil sem atvinnumaður í knattspyrnu, lengst af í Englandi en einnig í Þýskalandi.

Síðasta haust gekk Gylfi til liðs við Lyngby í Danmörku en dvöl hans þar entist aðeins um nokkurra mánaða skeið vegna meiðsla. Áður en Gylfi samdi við Lyngby hafði hann ekki spilað knattspyrnu í rúmlega tvö ár eftir að hafa verið handtekinn í júlí árið 2021 vegna lögreglurannsóknar í Bretlandi. Í apríl í fyrra tilkynnti lögreglan í Manchester að Gylfi yrði ekki ákærður og því laus allra mála.

Þó ofangreindar launakröfur séu mjög háar í efstu deild karla hér á landi eru þær dropi í hafið miðað við laun Gylfa hjá enska úrvalsdeildarliðinu Everton. Samkvæmt lista Viðskiptablaðsins í tímaritinu Áramótum var Gylfi með um 850 milljónir króna í árslaun hjá enska félaginu áður en málið kom upp.

Sé gert ráð fyrir að Gylfi hefði haldið sömu launum á síðasta keppnistímabili, má ætla að fjárhagslegt tjón hans vegna tekjumissis hlaupi á milljarði króna. Jafnframt miða samningar leikmanna oft við bónusa út frá ákvæðum um spilaða leiki, mörkum og annað, sem Gylfi gat ekki uppfyllt frá því að lögreglurannsóknin hófst.

Uppfært: Upphaflega sagði í fréttinni að launakröfur Gylfa hefðu hljóðað upp á fimm milljónir króna.