Þó svo að verðbólgumæling ágústmánaðar hafi verið lægri en spáð var, breytir hún litlu um framhaldið og nánast engar líkur eru á því að Seðlabankinn lækki stýrivexti frekar á árinu. Þetta kemur fram í viðbrögðum Hafsteins Haukssonar, aðalhagfræðings Kviku, sem send voru á viðskiptavini bankans í gær.

Í þeim kemur fram að undirskotið í mælingunni megi einkum rekja til þess að árstíðarbundin lækkun flugfargjalda hafi verið umtalsvert meiri en undanfarin ár og að útsölur virðist hafa staðið óvenju lengi í sumar. Þessir þættir breyta þó ekki heildarmyndinni og gera sérfræðingar Kviku ráð fyrir að verðbólga hækki á ný í september.

Í því samhengi skiptir máli að áhrif gjaldfrjálsra skólamáltíða detta út í þeirri mælingu, auk þess sem sérfræðingar Kviku gera ráð fyrir að lækkun á verði innfluttra vara í ágúst gangi til baka í september. Í kjölfarið gera þeir hins vegar ráð fyrir hagfelldri lækkun verðbólgunnar.

Hafsteinn Hauksson, aðalhagfræðingur Kviku.
Hafsteinn Hauksson, aðalhagfræðingur Kviku.
© Anton Brink (Anton Brink)

Veðjað á næsta ár

Í greiningu Kviku er ástandinu nú líkt við árið 2012. Þar er sagt að verðbólguskotið sem átti sér stað þá hafi reynst gott skapalón fyrir hjöðnunarferli verðbólgunnar – þá hafi, líkt og nú, „sveiflast verðbólgan eins og sagarblað í kringum vikmörk um nokkurt skeið áður en hún sigldi síðustu míluna í átt að markmiði.“ Sérfræðingar Kviku telja að ef hjöðnunarferlið fylgi svipuðu mynstri og árið 2012 verði verðbólgan komin undir vikmörk með sannfærandi hætti á næsta ári.

Tvær hindranir

Eins og staðan er nú standa þó tvær hindranir í vegi: þrýstingur á launakostnað og á húsnæðiskostnað. Í greiningunni segir að þessar hindranir séu nátengdar, því þær tengjast viðvarandi spennu á vinnumarkaði, en tekin séu merki á lofti um að hún sé að minnka. Eigi að síður telja sérfræðingar engar líkur á vextir verði lækkaðir þegar peningastefnunefnd fundar í október og ljóst er að bankinn telur að svigrúm til vaxtalækkana muni ekki myndast fyrr en að líða tekur á næsta ár.