Í nýrri skýrslu Samtaka atvinnulífsins um vinnumarkaðinn á Íslandi er sjónum m.a. beint að sérréttindum opinberra starfsmanna og kallað eftir jafnari samkeppnisgrundvelli.

Í skýrslunni er bent á að hið opinbera sé í harðri samkeppni við almenna markaðinn um vinnuafl. Á tímabilum hafi hið opinbera leitt launaþróun í landinu. Í ofanálag hafi starfsmenn hins opinbera mun ríkari réttindi heldur en starfsmenn á almenna markaðnum.

Mikilvægt sé að breyta lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og stjórnsýslulögum til að samræma réttindi á milli markaða og auka sveigjanleika í ríkisrekstri. Hið opinbera verði að fylgja merki almenna markaðarins og megi ekki semja um ríkari launahækkanir og réttindi en útflutningsgreinar.

Þegar starfsmenn taki ákvörðun um hvar þeir vilji starfa horfi þeir ekki einungis til launakjara heldur einnig réttinda og skyldna. Almenni markaðurinn, sem standi undir verðmætasköpun og þar með tekjum ríkissjóðs, verði að vera samkeppnishæfur við opinbera markaðinn um kaup og kjör.

Þó erfitt sé að meta með beinum hætti þann kostnað sem falli á hið opinbera vegna sérréttinda opinberra starfsmanna sé ljóst að þau dragi úr skilvirkni með ýmsum hætti. Samtökin segja að hægt væri að auka sveigjanleika og skilvirkni í opinberum rekstri með því að endurskoða lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, stjórnsýslulög og kjarasamninga.

Ríkuleg réttindi á opinbera markaðnum skapi viðvarandi þrýsting í kjaraviðræðum á almennum vinnumarkaði sem stuðli að ósjálfbærum launahækkunum. Jafnari samkeppnisgrundvöllur milli almenna og opinbera markaðarins auki samkeppnishæfni atvinnulífsins, sem stuðli að aukinni verðmætasköpun og þar með auknum skatttekjum.

Geti stuðlað að auknum kaupmætti

Í inngangi skýrslunnar segir að um áratuga skeið hafi launaþróun á Íslandi verið úr takti við framleiðniþróun, sem stuðli að aukinni verðbólgu og hærra vaxtastigi en ella.

„Umbætur á kjarasamningsumhverfinu gætu aukið skilvirkni við gerð kjarasamninga og stuðlað að bættu rekstrarumhverfi jafnt sem auknum kaupmætti launafólks. Íslenska þjóðin er ung í samanburði við önnur vestræn ríki en eldist hratt. Þessu fylgja áskoranir á vinnumarkaði þar sem hlutfallslega færri munu standa undir samneyslunni. Til að tryggja áfram mikla atvinnuþátttöku þarf að fyrirbyggja brotthvarf af vinnumarkaði og styðja betur við endurkomu þeirra sem falla út af vinnumarkaði vegna tímabundinna veikinda,“ segir m.a. í inngangi skýrslunnar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.