Eignarhaldsfélag verkfræðistofunnar Vista hagnaðist um 1,45 milljarða króna á síðasta ári eftir að hafa selt hugbúnaðarlausnina Vista Data Vision til bandarísku félagsins Bentley Systems. Tæplega 1,3 milljarðar komu til af sölu Vista Data Vision ehf. og um 183 milljónir vegna arðstekna líkt og fram kemur í Viðskiptablaðinu í dag.

Vista Data Vision byggir á íslensku hugviti og hafði lausnin verið í þróun í tvo áratugi af starfsmönnum Verkfræðistofunnar Vista. Í lausninni felst að taka saman mæligögn frá úr ólíkum mælitækjum og birta á einum stað í rauntíma.

Vista er fjölskyldufyrirtæki, stofnað af Andrési Þórarinssyni árið 1984, og var með tæplega tuttugu starfsmenn og 360 milljónir í ársveltu árið 2020. Fyrirtækið er enn að mestu í eigu Andrésar og fjölskyldu, en eiginkona hans og börn hafa öll starfað hjá fyrirtækinu með einum eða öðrum hætti í gegnum tíðina. Auk þeirra fer Hallur Birgisson með tæplega fimmtungshlut í fyrirtækinu.

Borguðu lengst af með lausninni

„Við erum bæði gamangróið fyrirtæki og um leið nýsköpunarfyrirtæki. Uppbyggingin á Vista Data Vision var öll fjármögnuð í gegnum reksturinn. Það voru ekki teknir inn nýir fjárfestar eða tekin lán. Lengst af borguðu eigendurnir með þessu því þeir höfðu trú á lausninni. Hagnaður fyrirtækisins var því lægri um töluverðan tíma en annars hefði orðið," segir Þórarinn Örn Andrésson, sonur Andrésar sem nú er starfsmaður Bentley Systems á Íslandi en var fyrir það framkvæmdastjóri Verkfræðistofunnar Vista.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag.