Icelandic Lava Show, sem heldur úti lifandi hraunsýningu á Granda og í Vík í Mýrdal, velti 1,1 milljarði króna árið 2024, samanborið við 620 milljónir árið 2023 og 194 milljónir króna árið 2022.
Icelandic Lava Show ehf. hagnaðist um 295 milljónir króna eftir skatta í fyrra samanborið við 56 milljónir króna árið 2023. Stjórn félagsins lagði til arðgreiðslu upp á allt að 150 milljónir króna í ár, að því er kemur fram í nýbirtum ársreikningi.
Lava Show opnaði í Vík í Mýrdal árið 2018 og í október 2022 opnaði félagið hraunsýningu úti á Granda.
Á sýningum Lava Show eru aðstæður eldgoss endurskapaðar með því að bræða alvöru hraun upp í 1.100°C og hella því inn í sýningarsal fullan af fólki. Aðstandendur sýningarinnar hafa lýst því að hvergi annars staðar í heiminum sé hægt að komast í návígi við rauðglóandi hraun með öruggum hætti.
„Við fengum hugmyndina að Lava Show þegar við gengum upp að eldgosinu á Fimmvörðuhálsi fyrir rúmum áratug. Sú upplifun var ógleymanleg og við vildum reyna að endurgera hana svo sem flestir fengju að njóta. Einhverjum fannst þessi hugmynd helst til brjáluð en við kýldum á það og sjáum ekki eftir því,“ sagði Júlíus Ingi Jónsson, sem stofnaði Lava Show ásamt eiginkonu sinni Rafnhildi Ágústsdóttur, við Viðskiptablaðið haustið 2022.

Rekstrargjöld námu 732 milljónum króna árið 2024 en þar af voru laun og annar starfsmannakostnaður um 284 milljónir. Ársverk voru 20 í fyrra samanborið við 16 árið 2023.
Eignir félagsins voru bókfærðar á 670 milljónir króna í árslok 2024 og eigið fé var um 460 milljónir. Félagið fjárfesti í varanlegum rekstrarfjármunum 100 milljónir árið 2024.
Lykiltölur / Icelandic Lava Show ehf.
2023 |
621 |
117 |
56 |
481 |
164 |
16 |
Stofnendur Lava Show, hjónin Júlíus Ingi Jónsson og Ragnhildur Ágústsdóttir, eru stærstu hluthafar Icelandic Lava Show ehf. með 40,4% hlut.
Félagið EBL Invest, í jafnri eigu Birgis Arnar Birgissonar og Ellerts Aðalsteinssonar, er næst stærsti hluthafinn með 40,0% hlut. Þá fer Promigo, í eigu Ragnars Þóris Guðgeirssonar, með 10% hlut.
