Laxey, félag sem byggir upp landeldi á laxi í Vestmannaeyjum, hefur lokið seinni hluta hlutafjárútboðs vegna uppbyggingar á öðrum áfanga af sex, með aukningu upp á um 4 milljarða króna.
Alls hefur félagið þannig aukið hlutafé um 9 milljarða króna á árinu, en um helmingur þeirrar fjárhæðar kemur frá nýjum fjárfestum, því er segir í fréttatilkynningu.
„Vegna mikillar eftirspurnar frá fjárfestum var ákveðið að stækka hlutafjáraukninguna umfram upphaflega áætlun.“
Meðal fjárfesta sem tóku þátt í útboðinu voru þrír stærstu lífeyrissjóðir landsins; Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR), Lífeyrissjóður verzlunarmanna (LIVE) og Gildi.
Að lokinni aukningunni er fjölskylda Sigurjóns Óskarssonar enn leiðandi hluthafi með um 38% hlut, strategískir erlendir fjárfestar með um 21% og íslenskir lífeyrissjóðir með um 20% hlut í félaginu.
Nýtt stórseiðahús
Hlutafjáraukningin nú tryggir m.a. fjármögnun á stórseiðahúsi sem verður staðsett í Viðlagafjöru við hlið eldiskerjanna, en það mun taka við 100 gramma seiðum frá seiðastöð félagsins. Húsið verður útbúið átta 1.100 rúmmetra kerjum í yfirbyggðu rými, sem félagið segir tryggja hámarks nýtingu á eldisrými félagsins, líföryggi og rekstraröryggi.
„Framleiðsla fyrir eigið eldi heldur áfram að þróast í seiðastöð félagsins, sem nú er í fullum rekstri. Fyrsti skammtur frjóvgaðra hrogna kom í stöðina í nóvember 2023 og var fluttur í áframeldi í nóvember 2024. Sá hópur hefur nú náð 2 kg meðalþyngd og stefnt er að slátrun í nóvember 2025, þegar fiskurinn hefur náð 4-5 kg sláturstærð.“
Uppsetning á sláturhúsi er hafin og verður það tilbúið til notkunar í haust. Félagið segir sláturhúsið verða mikilvægan þáttur í virðiskeðju félagsins og tryggja að Laxey hafi allt ferlið, frá eggi til slátrunar, á eigin vegum.
Framkvæmdir við annan áfanga eldisstöðvar Laxey eru hafnar. Útveggir fyrsta fiskeldiskersins hafa verið reistir og vinna heldur áfram samkvæmt áætlun.

„Við lítum á þessa árangursríku fjármögnun sem staðfestingu á þeirri trú sem fjárfestar bera til félagsins og framtíðarsýnar okkar. Hún gerir okkur kleift að hraða uppbyggingu, styrkja tekjustoðir og efla samstarf við aðra í greininni á grunni sem byggir á stöðugum og ábyrgum forsendum sem skaða hvorki samfélag né umhverfi og eru raunhæfar til framtíðar. Það að fá enn fleiri öfluga fjárfesta að félaginu eflir það, mun hjálpa til við uppbyggingu næstu áfanga og styðja við vegferð fyrirtækisins,“ segir Lárus Ásgeirsson, stjórnarformaður Laxey.
Arion banki var umsjónaraðili hlutafjárútboðsins og Mar Advisors fjármálaráðgjafi fyrir Laxey.