Laxey og Ístækni hafa undirritað samning um afhendingu á vinnslubúnaði fyrir sláturhús fyrirtækisins í gæðaframleiðslu á landeldislaxi. Í tilkynningu segir að lausnin tryggi meðhöndlun hráefnis og stuðli að hámarksgæðum lokaafurðar.

Samningurinn nær yfir afhendingu og uppsetningu alls vinnslubúnaðar, allt frá slátrun að flokkunarlínu.

Tækin samanstanda af blæði-/kælitanki, handslæingarlínu, auk þvottakerfis fyrir sjálfvirk þrif búnaðarins.

„Við hjá Laxey teljum mikilvægt að efla og styðja við bakið á íslenskum tæknifyrirtækjum í fiskvinnslulausnum og vissum að Ístækni býr yfir mikilli reynslu og sérþekkingu á þessu sviði. Ístækni hefur unnið að lausnum sem við vildum hafa í okkar framleiðslu til að tryggja bestu meðhöndlun og mestu kælingu hráefnis til að hámarka gæði vörunnar,“ segir Kristmann Kristmannsson, sviðsstjóri vinnslu og innkaupa hjá Laxey.

Ístækni er með starfsemi á Ísafirði á meðan Laxey rekur landeldi í Vestmannaeyjum en þar er sláturhús í undirbúningi.