Hugbúnaðarfyrirtækið LearnCove hefur tryggt sér 130 milljón króna fjármögnun til þess að efla vöxt fræðslu- og þjálfunarkerfis síns hér heima og erlendis. InfoCapital, fjárfestingarfélag Reynis Grétarssonar, og Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri CCP Games, voru þegar í hópi hluthafa og juku sinn hlut en fjárfestingarsjóður Útgerðarfélags Reykjavíkur (ÚR) kom nýr inn í hluthafahópinn.
LearnCove er notað af hópi fræðsluaðila, fyrirtækja, sveitarfélaga, skóla og stofnana hér heima og erlendis til miðlunar námskeiða og ferla. Hugbúnaðurinn er þróaður sem alþjóðlegt fræðslukerfi og býður upp á sjálfvirkan tungumálastuðning á 136 tungumálum.
Meðal fyrirtækja og opinberra aðila sem nota LearnCove eru Brim, Síldarvinnslan, Orkan, Garra, Vinnumálastofnun, Heilbrigðisstofnun Suðurlands, Félagsmálaráðuneytið, Mosfellsbær og Hafnarfjarðarkaupstaður.
Fjórfjöldun viðskiptavina kalli á stærra teymi
„Undanfarið ár hefur verið hálfgert ævintýri þar sem viðskiptavinahópurinn okkar fjórfaldaðist. LearnCove er núna í notkun meðal stærstu fyrirtækja, sveitarfélaga og stofnana landsins auk þess sem erlendum viðskiptavinum fjölgar,“ segir Aðalheiður Hreinsdóttir, ein stofnenda og framkvæmdastjóri LearnCove, í tilkynningu.
Hún segir hraða fjölgun viðskiptavina kalla á stækkun teymisins á næstunni og áætlar að starfsmannafjöldinn muni tvöfaldast á næstu tveimur árum.
„Fyrir utan öflugt teymi þá höfum við fengið með okkur einvala lið fjárfesta með mikla reynslu og árangur í að byggja upp sterk alþjóðleg fyrirtæki eins og Credit Info og CCP Games. Ráðgjöf þeirra og leiðbeiningar hafa reynst ómetanlegar fyrir okkar vöxt og uppbyggingu fyrirtækisins. LearnCove er notað af nokkrum stórum sjávarútvegsfyrirtækjum og því sérstaklega gleðilegt líka að fá nýsköpunarsjóð Útgerðarfélags Reykjavíkur inn í hluthafahópinn,” segir Aðalheiður.
LearnCove er að festa sig í sessi sem þjálfunar- og fræðslukerfi sjávarútvegsins. Aðalheiður segir að áhersla félagsins þegar sótt er á nýjan markað sé sjávarútvegurinn. Auk Brims, Síldarvinnslunnar og ÚR er kerfi LearnCove í notkun hjá fyrirtækjum tengdum sjávarútvegi í Grænlandi og Grikklandi.
Fjárfestar um LearnCove og hlutafjáraukninguna:
Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri CCP Games:
„Ég vil óska Heiðu og LearnCove teyminu öllu til hamingju með glæsilegan árangur á liðnu ári. Framundan eru spennandi tækifæri, fræðsla og þjálfun eru lykilþættir í að efla mannauð í hverju fyrirtæki hvar sem er í heiminum.“
Hákon Stefánsson, forstjóri InfoCapital:
„LearnCove er spennandi fyrirtæki sem við höfum mikla trú á. Sú staðreynd að leiðandi fyrirtæki í íslensku atvinnulífi, sveitarfélög og stofnanir noti hugbúnaðinn staðfesta mikla vaxtarmöguleika verkefnisins bæði hér heima og erlendis. Við fjárfestum í fólki og frá okkar sjónarhóli hefur teyminu tekist að þróa og innleiða hugbúnað sem mætir þeim fjölþættu áskorunum sem fyrirtæki og stofnanir standa frammi fyrir gagnvart þjálfun og fræðslu, hvort sem hún er innanhúss eða utanhúss.”
Runólfur Viðar Guðmundsson, framkvæmdastjóri ÚR:
„Fræðsla starfsmanna í gæða-, hreinlætis- og öryggismálum er einn af lykilþáttum í rekstri sjávarútvegsfyrirtækja. LearnCove teymið hefur þróað hugbúnað sem nýtist sérstaklega vel í sjávarútvegi bæði fyrir fræðslu og ferli. Við þekkjum hugbúnaðinn af eigin raun þar sem hann er m.a. notaður um borð í skipum Útgerðarfélags Reykjavíkur með góðum árangri.”