Evrópusambandið (ESB) hyggst leggja á hvalrekaskatt (e. windfall tax) á orkufyrirtæki í álfunni til að fjármagna stuðningsaðgerðir vegna hás orkuverðs sem hefur margfaldast frá innrás Rússa í Evrópu. Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, segir tillögur sambandsins geta skilað aðildarríkjum yfir 140 milljarða evra, eða meira en 19,5 þúsund milljarða króna. Financial Times greinir frá.

Ásamt áformum um að leggja hvalrekaskatt á orkufyrirtæki sem brenna ekki jarðgas hyggst ESB innleiða aðrar kvaðir á orkufyrirtæki.

Tillagan felur í sér skyldubundið verðþak hjá fyrirtækjum sem framleiða ódýra orku með öðrum orkugjöfum heldur en jarðgasi. Verðþakið, sem miðar við 180 evrur á megavattstund, mun því ná til orkufyrirtækja sem styðjast við kjarnorku eða endurnýjanlega orku.

Auk þess sagði von der Leyen að ESB sækist eftir sérstöku „krísuframlagi“, aðskildum skatti, frá helstu olíu-, gas- og kolafyrirtækjum. Sá skattur er innifalinn í framangreindri 140 milljarða evru upphæð.

„Á þessum tímum er óréttlátt að taka við sérstökum methagnaði og njóta þannig góðs af stríði á kostnað neytenda,“ sagði von der Leyen í stefnuræðu í Strassborg í dag. Hún tók fram að aðgerðir sambandsins væru tímabundnar.

Tillagan frá framkvæmdastjórn ESB þarf að hljóta samþykki frá aðildarríkjum sambandsins. Fulltrúar þeirra munu hittast þann 30. september næstkomandi.