Eurostar, sem rekur hraðlestar í Ermarsundsgöngunum, hefur tryggt sér 250 milljóna punda björgunarpakka frá hluthöfum, þar á meðal franska ríkinu, en það jafngildir um 43 milljörðum króna. Hluthafar Eurostar höfðu þegar lagt 200 milljónir evra til fyrirtækisins fyrr í faraldrinum. BBC greinir frá.

Lestafélagið hafði varað við því í nóvember síðastliðnum að það væri að „berjast fyrir lífi sínu“ eftir að eftirspurnin dróst saman um 95% í faraldrinum.

Breska ríkisstjórnin, sem seldi 40% hlut sinn í lestarfyrirtækinu árið 2015, neitaði að taka þátt í fjármögnuninni. Grant Shapps, samgönguráðherra Bretlands, sagði í febrúar að þó ríkisstjórnin væri „mjög hlynnt því að Eurostar myndi lifa af“ þá væri það ekki fyrirtækið þeirra og því „vandamál hlutahafa að leysa“.