Fjármálaráðuneytið hefur tilkynnt um að með breytingu á reglugerð um bifreiðamál ríkisins hefur bílanefndin verið lögð niður og ábyrgð og eftirlitshlutverk nefndarinnar færð yfir til forstöðumanna stofnana.

„Nefndin er lögð niður í samræmi við stefnu stjórnvalda um fækkun nefnda, en Ríkisendurskoðun hefur jafnframt lagt til að nefndin verði lögð niður,“ segir í tilkynningu ráðuneytisins.

Ríkisendurskoðun lagði fyrst til árið 2012 að leggja ætti niður bílanefnd ríkisins.

Bílanefnd hafði það hlutverk að aðstoða fjármálaráðuneytið við framfylgni reglugerðarinnar. Kaup á bifreiðum, rekstrarleiga, aksturssamningar og notkun starfsmanna á bifreiðum stofnunar utan vinnu fóru fram að fengnu samþykki nefndarinnar.

Þá hafði nefndin hlutverk í að koma á sameiginlegum innkaupum stofnana á bílum og framfylgni ríkisstjórnarinnar á þeirri ákvörðun að stofnanir skulu aðeins kaupa rafmagnsbíla. Fjármálaráðuneytið segir mikinn árangur hafa náðst í orkuskiptum á fólksbílum ríkisins.

Héðan í frá munu forstöðumenn taka ákvarðanir um kaup og leigu bíla sem ekki þurfa að fara fram að fengnu samþykki nefndarinnar, í samræmi við aðrar rekstrarlegar ákvarðanir sem eru á ábyrgð forstöðumanna.

„Í ábyrgðinni felst að bílakaup fari, eins og verið hefur, fram í samræmi við áherslur í ríkisrekstri, aðgerðaráætlun í loftslagsmálum og innkaupasetefnu ríkisins.“