Stjórn Eikar fasteignafélags leggur til að greiddur verði út 3.393,4 milljóna króna arður til hluthafa á árinu 2025 vegna rekstrarársins 2024.

Félagið birti ársuppgjör eftir lokun markaða í dag.

Leigutekjur 9,9 milljarðar

Félagið skilaði 6,5 milljarða króna hagnaði eftir skatta. Til samanburðar var hagnaður félagsins 5,9 milljarðar árið 2023.

Tekjur félagsins jukust um 2,4% og námu 11,5 milljörðum króna í fyrra, þar af námu leigutekjur 9,9 milljörðum.

Félagið spáir því að EBITDA félagsins verði á bilinu 7.620 – 7.940 milljónir króna á árinu 2025 á föstu verðlagi miðað við vísitölu neysluverðs í janúar 2025. Þá spáir félagið að rekstrartekjur verði á bilinu 12.055 – 12.545 milljónir, þar af leigutekjur á bilinu 10.375 – 10.800 milljónir.

Garðar Hannes Friðjónsson forstjóri segir áskoranir í eignasafni félagsins er varðar lok stórra leigusamninga síðustu misseri hafa gefið félaginu tækifæri til að þróa fasteignir félagsins að þörfum nýrra viðskiptavina ásamt því að auka svigrúm til frekari uppbyggingar leigutekna.

Markmið um uppbyggingu leigutekna hingað til hafi náðst og endurspeglist áfram í áætlun ársins 2025, sem geri ráð fyrir um 5% raunvexti leigutekna og um 4,5% raunvexti rekstrarhagnaðar (EBITDA) leiðréttan fyrir einskiptisliðum, byggt að mestu leyti á þegar gerðum leigusamningum og nánast óbreyttu eignasafni.

„Fyrirséð er áframhaldandi uppbygging á þessu ári sem getur skilað félaginu á milli 540 og 570 milljónum króna á ársgrundvelli, þ.e. þegar 95% virðisútleiguhlutfalli hefur verið náð og 6.400 þróunarfermetrar hafa verið leigðir út, en þessar leigutekjur ættu að skila sér beint inn í rekstrarhagnað.

Að þessu sögðu má jafnframt benda á að uppbyggingunni er hvergi nærri lokið. Auk áðurnefndra 6.400 þróunarfermetra er félagið með um 13.000 fermetra til viðbótar í þróun, auk þess sem veruleg tækifæri felast í byggingarheimildum félagsins,“ bætir Garðar við.

Stjórn Eikar fasteignafélags og Garðar Hannes Friðjónsson, forstjóri, komust í síðasta mánuði að samkomulagi um starfslok hans hjá félaginu.

Garðar Hannes mun stýra félaginu áfram sem forstjóri fram yfir aðalfund félagsins sem ráðgert er að halda þann 10. apríl næstkomandi.