Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur lagt fram tillögur að breytingum við fjárlagafrumvarps ársins 2023 sem felur í sér að frumútgjöld ríkissjóðs verði 37 milljörðum króna meiri en gert var ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu sem lagt var fram í september.

„Vaxtagjöld hækka einnig um 14 ma.kr., þar af má rekja ríflega 10 ma.kr. til áhrifa verðbólgu á verðtryggð lán ríkissjóðs. Alls er því lögð til 50,6 ma.kr. hækkun á fjárheimildum málefnasviða, eða 3,8%. Halli á rekstri ríkisjsóðs verður því 2,9% af landsframleiðslu, eða 27 ma.kr.“ segir í tilkynningu ráðuneytisins.

„Á sama tíma er staðinn vörður um þau meginmarkmið opinberra fjármála að stöðva hækkun skuldahlutfalla,“ segir í tilkynningunni. Jafnframt segir að mikilvægt sé að ríkisfjármálastefnan rói ekki í gagnstæða átt við stefnu Seðlabankans.

Tekið er fram að uppfærðar tekjuáætlanir geri ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs árið 2023 verði 24 milljörðum hærri en útlit var fyrir við framlagningu fjárlagafrumvarpsins í september.

Þriðjungur í heilbrigðismál

Af auknum framlögum sem lögð eru til vega þyngst heilbrigðismál, þar sem lögð er til 12,2 milljarða króna aukning. Þar af gert ráð fyrir að 4,3 milljarðar renni í að styrkja Landspítalann, Sjúkrahúsið á Akureyri og heilsugæsluna.

Auk þess er lögð til hækkun, m.a. til að skapa svigrúm til upptöku nýrra lyfja, ásamt verkefnum til að auðvelda heilbrigðiskerfinu að glíma við eftirköst kórónuveirufaraldursins.

Lagt er til að auka framlög til lögreglunnar um 900 milljónir með hliðsjón af markmiðum um viðbragðstíma, málsmeðferðarhraða og öryggisstigs auk 500 milljóna króna hækkunar í aðgerðir gegn skipulagðri brotastarfsemi.

Þá er lagt til að styrkja Landhelgisgæsluna með 600 milljóna hækkun, m.a. vegna aukins eldsneytiskostnaðar, endurnýjunar búnaðar og leigu nýs flugskýlis.

Verkefni vegna flóttafólks og Úkraínu nemi 5 milljörðum

Lagt er til að framlög til félags-, húsnæðis- og tryggingamála hækki um 3,7 milljarða en þar af fari 1,1 milljarður til að hækka frítekjumark atvinnutekna öryrkja í 200.000 krónur á mánuði.

Alls er gert ráð fyrir að hækkun vegna ýmissa verkefna sem tengjast fjölgun flóttafólks og umsækjendum um alþjóðlega vernd, ásamt stuðningi við Úkraínu, nemi um 5 milljarða króna.

5 milljarðar af tekjuskatti renni í útsvar

Þá er í forsendum endurskoðaðrar tekjuáætlunar gert ráð fyrir að ríkissjóður gefi eftir 5 milljarða af tekjuskatti einstaklinga á móti samsvarandi hækkun í útsvarstekjum sveitarfélaga til að bæta afkomu þeirra í tengslum við stöðu á málaflokki fatlaðs fólks.

„Gert er ráð fyrir að ríki og sveitarfélög geri með sér sérstakt samkomulag um þessar breytingar sem komi sem viðauki við fyrri samkomulög um fjármögnun málaflokksins.“

4 af 5,5 milljörðum í niðurgreiðslu kvikmyndagerðar

Af öðrum málum nefnir fjármálaráðuneytið að lögð er til hækkun til nýsköpunar, rannsókna og þekkingargreina sem nemur 5,5 milljörðum króna.

Stærsti hluti aukinni framlaga til þessa málaflokks eru 4 milljarðar til að mæta áætlaðri fjárþörf vegna endurgreiðslna til kvikmyndagerðar á næsta ári og hins vegar 1,3 milljarðar vegna uppfærðrar áætlunar á styrkjum til fyrirtækja vegna endurgreiðslna á rannsókna- og þróunarkostnaði.