Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík hefur lagt fram tillögur sem hann áætlar að spari ríflega sjö milljarða króna við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2023. Jafnframt snúa tillögurnar að tekjuaukandi aðgerðum sem geta skipt sköpum fyrir rekstur borgarinnar.
„Með breytingatillögum okkar kynnum við raunhæfar en nauðsynlegar aðgerðir til að koma böndum á rekstur borgarinnar og svara fremur máttlausum hagræðingartillögum meirihlutans. Tillögur meirihlutans skila samanlagt aðeins einum milljarði í hagræðingu, sem er dropi í hafið. Áherslur meirihlutans virðast einkennast af magni umfram gæðum,“ segir Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, í tilkynningu.
Í tillögum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins er lagt til að draga úr rekstrargjöldum sem nemur 5,2 milljörðum króna með því að minnka yfirbyggingu. Þar vegur þyngst tillaga um að skera niður launakostnað um 5%, en þess gætt að hlífa framlínustarfsfólki. Samhliða er lagt til að hagræða í miðlægri stjórnsýslu og fækka borgarfulltrúum.
Jafnframt er lögð til frestun eða lækkun á fjárfestingum sem nemur 1.850 milljónum króna árið 2023 og 4.850 milljónum króna næstu fimm árin. Tillögurnar felast m.a. í því að fjárfestingar á sviði þjónustu- og nýsköpunar verði lækkaðar um helming eða um 1.500 milljónir króna og að forgangsraðað verði í þágu starfrænnar umbreytingar í velferðarþjónustu, skólastarfi barna og á umhverfis- og skipulagssviði. Auk þessa verði fjárfestingu í Grófarhúsi og á Hlemmsvæði frestað.
„Til viðbótar við þessar hagræðingaraðgerðir leggjum við fram tillögur um tekjuaukandi aðgerðir. Aðgerðirnar snúa annars vegar að frekari sölu lóða undir íbúðar- og atvinnuhúsnæði í borginni. Lóðasalan sem slík mun skapa borginni auknar tekjur, en jafnframt sú fjölgun íbúa og fyrirtækja sem fylgja mun í kjölfarið,“ segir Hildur.
„Hins vegar leggjum við að venju til sölu á Ljósleiðaranum og öðrum eignum sem ekki snúa að lögbundnu grunnþjónustuhlutverki Reykjavíkurborgar. Geta aðgerðirnar skilað borginni tugum milljarða sem verja má til lækkunar á skuldum og fjármagnskostnaði ásamt því að fjárfesta í innviðum.“
Breytingatillögurnar
Breytingartillögur Sjálfstæðisflokksins við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2023 sem lagðar verða fram við síðari umræðu í borgarstjórn í dag:
Lækkun eða frestun á fjárfestingum
D-1, tillaga um að fjárfesting í áhöldum, tækjum og hugbúnaði ÞON verði lækkuð úr 3.080 milljónum króna, niður í 1.580 milljónir króna. Forgangsraðað verði í þágu stafrænnar umbreytingar á velferðarþjónustu, skólastarfi barna og þjónustu umhverfis- og skipulagssviðs. Kostnaðarlækkun vegna tillögunnar nemur 1.500 milljónum króna og er lagt til að handbært fé verði hækkað sem því nemur.
D-2, tillaga um frestun fjárfestingar í Grófarhúsi. Frestað verði áformaðri 3.050 milljóna króna fjárfestingu í Grófarhúsi til næstu fimm ára. Handbært fé verði hækkað sem því nemur næstu árin.
D-3, tillaga um frestun fjárfestingar í Hlemmsvæði næsta árið. Kostnaðarlækkun vegna tillögunnar nemur 300 milljónum króna af kostnaðarstað 3105 og er lagt til að handbært fé verði hækkað um samsvarandi fjárhæð.
Hagræðingar
D-4, tillaga um lækkun rekstrargjalda borgarinnar með minnkun yfirbyggingar. Lagt er til að ráðnir verði óháðir sérfræðingar til að framkvæma stjórnkerfisúttekt á borgarkerfinu, og koma með tillögur fyrir 1. mars 2023, að 5% niðurskurði á launum og launatengdum gjöldum borgarinnar fyrir árið 2023. Lögð verði áhersla á að verja framlínustörf og nauðsynleg störf við framfylgd lögbundinnar þjónustu, yfirbygging verði minnkuð svo styrkja megi grunnþjónustu. Starfsmönnum borgarinnar hefur fjölgað um 25% síðastliðin 5 ár meðan íbúum hefur aðeins fjölgað um 10%. Þá hafa launahækkanir hjá Reykjavíkurborg verið hlutfallslega langt yfir þróun á almennum markaði, sbr. skýrslu kjaratölfræðinefndar frá nóvember 2022. Samhliða hefur grunnþjónusta ekki batnað. Með aðgerðinni má ná fram 4.845 milljóna króna hagræðingu á ársgrundvelli í rekstri borgarinnar, sem lagt er til að verði færð til hækkunar á handbæru fé.
D-5, tillaga um að mannréttindaskrifstofa verði sameinuð velferðarsviði. Lagt er til að mannréttindaskrifstofa Reykjavíkur verði sameinuð velferðarsviði og verkefni hennar flutt þangað. Þá er jafnframt lagt til að mannréttindaráð og velferðarráð verði sameinuð í eitt ráð: velferðar- og mannréttindaráð. Tillagan felur í sér hagræðingu og aukna skilvirkni í stjórnkerfinu. Auk þess felur tillagan í sér valdeflingu í verki svo styrkja megi málaflokkinn og efla. Áætlað er að breytingin muni fela í sér hagræðingu sem nemur 200 milljónum króna árlega, sem færðar verða af kostnaðarstöðum 01270 og 01271 yfir á handbært fé.
D-6, tillaga um að hagræða í miðlægri stjórnsýslu borgarinnar sem nemur 100 milljónum króna á skrifstofu borgarstjóra. Fjárheimildir af kostnaðarstað 01100 verði því lækkaðar um 100 milljónir og handbært fé hækkað sem því nemur.
D-7, tillaga um að hagræða í miðlægri stjórnsýslu borgarinnar sem nemur 50 milljónum króna í upplýsinga- og vefdeild. Fjárheimildir af kostnaðarstað 01288 verði því lækkaðar um 50 milljónir og handbært fé hækkað sem því nemur.
D-8, tillaga um að hagræða í sameiginlegum kostnaði sem nemur 10 milljónum króna í mótttökur. Fjárheimildir af kostnaðarstað 09202 verði því lækkaðar um 10 milljónir og handbært fé hækkað sem því nemur.
D-9, tillaga um að hagræða við skipulag borgarstjórnarfunda. Borgarstjórnarfundir hefjist klukkan 9 að morgni, tvo þriðjudaga í mánuði, og verði þannig dregið úr kostnaði við yfirvinnu starfsfólks og veitingar á fundum. Fjárheimildir skrifstofu borgarstjórnar, kostnaðarstaður 01001, verði þannig lækkaðar til samræmis og handbært fé hækkað um sömu fjárhæð.
D-10, tillaga um fækkun borgarfulltrúa. Í 5. tölulið 11. greinar sveitarstjórnarlaga er kveðið á um að fjöldi aðalmanna í sveitarstjórn skuli vera 23-31 í sveitarfélagi með fleiri en 100.000 íbúa. Borgarstjórn Reykjavíkur skorar á Alþingi að endurskoða umrætt lagaákvæði í því skyni að borgarstjórn hafi sjálfdæmi um fjölda borgarfulltrúa. Fækkun borgarfulltrúa mun leiða til kostnaðarlækkunar á kostnaðarstað 01001.
Tekjuaukandi aðgerðir
D-11, tillaga um fjölgun lóðaúthlutana undir fjölbreyttar gerðir íbúðarhúsnæðis. Tekjuáætlun 5 ára fjárhagsáætlunar verði styrkt með því að fjölga lóðum undir fjölbreyttar gerðir íbúðarhúsnæðis í borgarlandinu. Tilgangurinn er að auka tekjustreymi A-hluta borgarsjóðs en þó ekki síður að gefa borgarbúum áhugaverðara val á búsetukostum á hagstæðu verði. Borgarstjórn felur skipulags- og samgöngusviði í samvinnu við skipulags- og samgönguráð að gera tillögur að breytingum á aðal- og deiliskipulagsáætlunum, eins og við á, sem vinna að þessu markmiði. Horft verði í fyrstu atrennu til fjölgunar lóða í Örfirisey, Úlfarsárdal, Kjalarnesi og Staðahverfi í Grafarvogi.
D-12, tillaga um fjölgun atvinnulóða fyrir fjölbreytta atvinnustarfsemi. Tilgangurinn er að auka tekjustreymi A-hluta borgarsjóðs til næstu ára. Á undanförnum árum hafa reykvísk fyrirtæki af margvíslegum toga ekki séð sér annað fært en að flytja starfsemi sína úr höfuðborginni. Kostir á uppbyggingu innan Reykjavíkur hafa verið takmarkaðir og fáar atvinnulóðir eru í boði. Markmið tillögunnar er því einnig að snúa þeirri þróun við. Hugað verði að skipulagi atvinnulóða við þróun allra borgarhverfa. Borgarstjórn feli skipulags- og samgöngusviði í samvinnu við skipulags- og samgönguráð að gera tillögur að breytingum á aðal- og deiliskipulagsáætlunum, eins og við á, sem stefna að þessu markmiði. Fjárhagsáætlun verði breytt til samræmis verði tillagan samþykkt.
Eignasala
D-13, tillaga um að Ljósleiðarinn ehf. verði seldur. Lagt er til að Ljósleiðarinn ehf. verði seldur í ljósi þess að sala á nettengingum er hvorki hluti af grunnrekstri Reykjavíkurborgar né hefðbundnum grunnrekstri Orkuveitunnar. Söluandvirðið verði nýtt til að lækka skuldir og fjármagnskostnað Reykjavíkurborgar, ásamt því að fjárfesta í innviðum.
D-14, tillaga um að sumarhús borgarstjórnar verði selt. Lagt er til að sumarhús borgarstjórnar við Úlfljótsvatn (lóð 170944, eignanúmer 08065) verði selt. Áætla má að verðmæti sumarhússins sé á bilinu 25 til 30 milljónir króna. Söluandvirðið verði fært á handbært fé.
Rekstrarútboð
D-15, tillaga um að farið verði í rekstrarútboð á öllum þeim bílastæðahúsum sem Reykjavíkurborg rekur í dag. Borgarstjórn samþykkir að farið verði í rekstrarútboð fyrir þau bílastæðahús sem Reykjavíkurborg rekur í dag. Húsin eru í dag rekin með 180 milljóna króna tapi. Reksturinn verði boðin út eigi síðar en 1. febrúar 2023.