Tilnefningarnefnd VÍS hefur lagt til að Hrund Rudolfsdóttir, fyrrverandi forstjóri Veritas, verði kjörin í stjórn félagsins á aðalfundi þann 21. mars næstkomandi.

Guðný Hansdóttir fjárfestir, sem hefur setið í stjórn VÍS frá árinu 2020 gefur ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu, að því er kemur fram í skýrslu tilnefningarnefndar.

Nefndin leggur til að stjórn félagsins verði að öðru leyti óbreytt og að eftirtaldir einstaklingar verði því kosnir:

  • Stefán Héðinn Stefánsson, stjórnarformaður – tók sæti í stjórn í mars 2020
  • Vilhjálmur Egilsson, varaformaður – tók sæti í stjórn í desember 2018
  • Ásgeir Helgi Reykfjörð Gylfason – tók sæti í stjórn í mars 2023
  • Marta Guðrún Blöndal – tók sæti í stjórn í desember 2018
  • Hrund Rudolfsdóttir

Í skýrslu tilnefningarnefndar kemur fram að auk þeirra fjögurra sitjandi stjórnarmanna sem sækjast eftir endurkjöri hafi fjórir aðrir einstaklingar boðið sig fram. Þrír þeirra drógu framboð sitt til baka.

Gylfi Dalmann Aðalsteinsson, Jensína Kristín Böðvarsdóttir (formaður) og Magnús Bjarnason sitja í tilnefningarnefnd VÍS.

Hrund Rudolfsdóttir var forstjóri Veritas samstæðunnar 2013-2023 og stjórnarformaður allra dótturfyrirtækja Veritas. Tilkynnt var í september síðastliðnum að hún hefði látið af störfum sem forstjóri Veritas, sem var í 39. sæti á lista Frjálsrar verslunar yfir tekjuhæstu fyrirtæki landsins árið 2022.

Hrund var þar áður framkvæmdastjóri mannauðsmála í Marel og sat í framkvæmdastjórn félagsins á áruum 2009-2013. Þá var hún framkvæmdastjóri rekstrar- og fjárfestingaverkefna í erlendum heilbrigðistengdum fjárfestingum Milestone á árunum 2003-2009, jafnframt því að gegna stöðu rekstrarstjóra og svo stöðu framkvæmdastjóra Lyf & heilsu árin 2001-2006.

Hrund hefur setið í stjórnum ýmissa fyrirtækja og hagsmunasamtaka. Hún hefur setið í stjórn Nova frá árinu 2018. Hún var í framkvæmdastjórn Viðskiptaráðs á árunum 2018-2024, sat í stjórn Eimskips frá 2013-2020, var stjórnarformaður Stefnisá árunum 2009-2019, sat í stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna á árunum 2007-2009, og var formaður Samtaka verslunar og þjónustu á árunum 2005-2009.