AU 22 ehf., stærsti hluthafi Origo, hefur lagt fram tillögu við hluthafa á aðalfundi Origo um að félagið verði afskráð úr Kauphöll Íslands. Aðalfundurinn fer fram þann 21. mars.

AU 22 er í eigu framtakssjóðsins Umbreytingar II sem er í stýringu hjá Alfa Framtaki og lauk nýlega yfirtökutilboði í Origo með það fyrir augum að afskrá félagið og gera breytingar á rekstrinum. AU 22 á nú 63% hlut í Origo. Yfirtökutilboðið kom í kjölfar þess að Origo seldi hugbúnaðarfyrirtækið Tempo að fullu og greiddi söluandvirðið að mestu út til hluthafa, alls um 24 milljarða króna. 

Í greinargerð með tillögunni er bent á að við yfirtökutilboðið hafi þess verið getið að ætlun Umbreytingar væri að afskrá félagið. Afskráning væri nauðsynleg til að geta betur nýtt tækifæri til umbreytinga, meðal annars með því að skerpa enn frekar á þjónustuframboði og skipulagi þess. „Þær umbreytingar í rekstri félagsins sem AU 22 vill leiða og gætu meðal annars falist í auknu sjálfstæði einstakra rekstrareininga, aðkomu meðfjárfesta að tilteknum rekstrareiningum og uppkaupum á hentugum viðbótareiningum gætu valdið umtalsverðum sveiflum í afkomu félagsins á næstu árum,“ segir í greinargerðinni.

Þá er bent á að eftir söluna á Tempo sé Origo orðið minnsta félagið í Kauphöllinni að markaðsvirði. Markaðsvirði Origo er nú um 13,7 milljarðar króna.

Hluthöfum hafi fækkað úr 930 í 420 frá lokum síðasta árs. Flot á hlutabréfum í félagsins hafi farið ört minnkandi samhliða fækkun hluthafa. Beinn og óbeinn tilkostnaður vegna skráningar félagsins sé auk þess hlutfallslega hár í samhengi við bæði markaðsvirði og rekstrarhagnað félagsins.

Hluthöfum hafi með hinu valfrjálsa yfirtökutilboði þegar verið boðið að selja bréf sín á verði sem var 14% yfir meðalgengi á bréfum félagsins.

Alfa áður reynt við afskráningu

Alfa Framtak vildi árið 2019 gerast stærsti hluthafi í Heimavöllum gegn því að félagið yrði afskráð úr Kauphöllinni. Þá samþykktu 81% hluthafa Heimavalla afskráningu. Hins vegar hafnaði Kauphöll Íslands afskráningunni þar sem stuðningur meðal hluthafa við afskráninguna þótti ekki nógu afgerandi.