Stjórn Skeljar fjárfestingarfélags mun á aðalfundi félagsins 6. mars næstkomandi leggja fram tillögu um breytta arðgreiðslustefnu. Verði ný arðgreiðslustefna samþykkt er gert ráð fyrir því að stjórn Skeljar hafi rýmra svigrúm til arðgreiðslutillagna.
Líkt og greint var frá samhliða birtingu ársuppgjörs félagsins mun stjórnin leggja til að greiddur verði út 6 milljarða króna arður til hluthafa í tveimur jafnstórum skrefum í ár, annars vegar 20. mars og hins vegar 20. október.
Verði arðgreiðslutillaga stjórnarinnar samþykkt, munu heildargreiðslur Skeljar til hluthafa, í formi arðgreiðslna og endurkaupa hafa numið 8.592 milljónum króna frá árinu 2022, að því er kemur fram í greinargerð með tillögunni.
Hin sex milljarða króna fyrirhugaða arðgreiðsla nemur 9,9% af heildareignum Skeljar. Ljóst er að það er talsvert yfir þeim efri mörkum sem gildandi arðgreiðslustefna félagsins segir til um. Samkvæmt henni er stefna stjórnar er að greiða árlega út arð sem nemur allt að 1,5% af heildareignum félagsins að frádreginni þeirri fjárhæð sem nýtt verður í kaup á eigin bréfum fram að boðun næsta aðalfundar.
Í tillögum stjórnar sem lagðar verða fyrir aðalfundinn er m.a. tillaga um breytta arðgreiðslustefnu. Samkvæmt henni yrði stefna stjórnar að greiða árlega út arð sem nemur allt að 5% af heildareignum félagsins eða allt að 50% af hagnaði fyrra árs, að frádreginni þeirri fjárhæð sem nýtt verður í kaup á eigin bréfum fram að boðun næsta aðalfundar.
Jafnframt gerir hún tillagan ráð fyrir að í sérstökum tilvikum, svo sem við sölu eigna, muni stjórn taka til skoðunar hvort tilefni sé til að víkja frá framangreindum viðmiðum og leggja til hærri arðgreiðslu.
„Verði ný arðgreiðslustefna samþykkt er gert ráð fyrir því að stjórn Skeljar hafi rýmra svigrúm til arðgreiðslutillagna. Stjórn telur, að teknu tilliti til stöðu efnahagsmála og vaxtastigs, að eðlilegt sé að hún hafi svigrúm til þess að leggja til hærri arðgreiðslur fyrir aðalfund, telji hún tilefni til þess,“ segir í greinargerð stjórnar.