Hagnaður fasteignafélagsins Eikar hf. nam 8 milljörðum króna árið 2022 samanborið við 4,9 milljarða hagnað árið 2021. Stjórn Eikar leggur til að greiddur verði arður til hluthafa félagsins sem nemur 2 milljörðum króna. Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins.
Rekstrartekjur félagsins námu rúmum 10 milljörðum króna en þar af námu leigutekjur tæpum 8,6 milljörðum króna. Vaxtaberandi skuldir jukust um 5 milljarða á milli ára og námu 70 milljörðum króna í lok árs. Eiginfjárhlutfall félagsins var 34% í lok árs.
Bókfært virði fjárfestingareigna í lok árs var um 120 milljarðar króna, samanborið við 105 milljarða ári fyrr. Virði fjárfestingareigna Eikar hefur hækkað um 30 milljarða frá árinu 2018. Matsbreyting fjárfestingareigna var jákvæð um 10,4 milljarða á árinu.
Gengi bréfa félagsins lækkaði mest allra félaga á aðalmarkaði í dag, um 3,3% í 80 milljón króna viðskiptum. Gengið stendur í 10,35 krónum á hlut og hefur ekki verið lægra frá vori 2021.