Samtök iðnaðarins leggjast gegn frumvarpi atvinnuveganefndar um forgangsorku en nefndin leggur fram frumvarpið að beiðni Guðlaugs Þórs Þórssonar, orku- og loftlagsráðherra.
„Með fyrirhugaðri lagasetningu verður samkeppnismarkaður með raforku afnuminn á Íslandi og miðstýring innleidd. Með því er farið 20 ár aftur í tímann, þegar opnað var á samkeppnismarkað með raforku á Íslandi,” segir í umsögn SI í samráðsgáttinni en frumvarpið er til umræðu hjá Atvinnuveganefnd.
Leggja SI þess í stað til að stjórnvöld og Alþingi leiti allra leiða til að bregðast hratt við rót vandans sem blasir við, sem er raforkuskortur, og greiði götu tafarlausrar uppbyggingar Í raforkukerfinu.
„Tryggt aðgengi að raforku er þjóðaröryggismál og forsenda atvinnuuppbyggingar um allt land, verðmætasköpunar og útflutnings til framtíðar, orkuskipta og árangurs Í loftslagsmálum.“
„Það skýtur skökku við að í greinargerð frumvarpsins er hvergi minnst á þá stöðu að raforkuframleiðsla hefur ekki haldið í við þróun samfélagsins síðastliðin 15 ár og ekki gerð grein fyrir alvarlegri stöðu í raforkumálum landsins. Engin tilraun er gerð til að meta þau víðtæku áhrif sem umrætt lagaákvæði myndi hafa á atvinnulíf, almenning, verðmætasköpun, útflutning, ríkissjóð, samkeppnishæfni Íslands og stöðu hins markaðsráðandi fyrirtækis á samkeppnismarkaði með raforku,“ segir í umsögn SI
Samtökin segja að ekki sé tekið tillit til þess að nú þegar eru í gildi ákvæði sem heimila skerðingu á raforku til notenda. Brýnt er að tæma allar mögulegar leiðir til að bregðast við stöðunni áður en íþyngjandi lagaákvæði sem þetta eru sett.
Að mati SI brestur Orkustofnun hæfi til að fara með þau verkefni sem stofnuninni eru falin í frumvarpinu. Þá þarf að taka þarf á tómlæti sem birtist í umræddu frumvarpi um stöðu núverandi stórnotenda og möguleika á framlengingu samninga þessara aðila.
„Gagnrýnisvert er að ekki er umfjöllun Í frumvarpinu um áhrif á þjóðréttarlegar skuldbindingar, s. s. vegna EES samningsins, og að sama skapi liggja ekki fyrir upplýsingar um hvort og hvenær boðaðar breytingar verða tilkynntar Eftirlitsstofnun EFTA (ESA). Gagnrýni er á túlkun á alþjónustukvöðum sem er ekki í samræmi við inntak og markmið þeirrar þjónustu. Á Íslandi er ekki búið að koma á virkum heildsölumarkaði með raforku og að sama skapi hefur ekki verið komið á heimild til handa stórnotendum til að endurselja umframraforku, sé hún til staðar, inn á markað. ,“ segir meðal annars í frumvarpinu.
SI benda á að markaðslausnir hafa ekki verið nýttar til að stýra raforkunotkun sem ætti að vera eðlilegt fyrsta skref til að bregðast við þeirri stöðu sem upp er komin. Þá er frumvarpið með sólarlagsákvæði á sama tíma og ekkert bendir hins vegar til þess að staða raforkumála verði orðin betri eftir 1-2 ár. „Heldur bendir allt til þess, miðað við núverandi forsendur, að raforkuskortur verði enn meiri. Samþykkt frumvarpsins myndi setja slæmt fordæmi og hætta er á að umrætt lagaákvæði verði ítrekað framlengt.“
Í umsögninni segir að frumvarpið endurspegli þá alvarlegu stöðu sem er komin upp á Íslandi í raforkumálum. Hér stefnir í raforkuskort með neikvæðum afleiðingum fyrir allt samfélagið.
„Fyrirhuguð lagabreyting endurspeglar hversu alvarleg staðan er orðin, og felur í sér viðbrögð í stað þess að ráðist sé með öllum tiltækum ráðum að rót vandans. Heilt yfir gera samtökin alvarlegar athugasemdir við boðaðar breytingar. Samtökin gagnrýna harðlega í þessu samhengi hvernig staða í raforkumálum er dregin upp í frumvarpinu. Þá má öllum vera ljóst að núverandi ástand ber öll þess merki að raforka er af skornum skammti hér á landi, m. ö. o. að við öllum blasir að hér er raforkuskortur.”
Þá telja SI það vekja furðu að í greinargerð með frumvarpinu sé vísað til þess að vakin hafi verið athygli á ástandi mála með erindi Landsvirkjunar á Orkustofnun í október á þessu ári.
„Í þessu samhengi vísast til þess að Orkustofnun ber að hafa eftirlit með sölufyrirtækjum raforku og ber þeim fyrirtækjum að upplýsa stofnunina um öll viðskipti með raforku, sbr. 19. gr. raforkulaga. Er því ekki ljóst hvort og hvernig Orkustofnun hefur aflað og haldið utan um umræddar upplýsingar og verið unnt að leggja mat á mögulega sölu á raforku umfram þá raforku sem stendur til boða hverju sinni.“
Samtökin sjá einnig ástæðu til að gagnrýna að í frumvarpinu er vísað til raforkuspár Orkustofnunar sem viðmiðs um raforkunotkun og telja samtökin að slík áætlunargerð sem viðbrögð eiga að snúa að verði að byggjast á fullnægjandi og óyggjandi gögnum.
Vekur SI athygli atvinnuveganefndar á að það séu til staðar að minnsta kosti þrjár ólíkar spár um raforkuþörf.
„Eru þessar spár samhljóma um þá raforkuþörf sem komandi orkuskipti kalla á þó að eilítið greini þar á milli en aðallega þó að spá Landsnets sé uppreiknuð og sýni fram á meiri raforkuþörf en þær sem fram koma í grænbókinni. Hins vegar er svo raforkuspá Orkustofnunar sem víkur frá áðurnefndum spám.”
Með frumvarpinu er farið á skjön við regluverk EES- samningsins og markmið raforkulaga um markaðsopnun. Raforkumarkaður væri miðstýrður þar sem viðskipti munu að óbreyttu fara fram undir eftirliti og samkvæmt samþykki opinbers aðila, þ. e. Orkustofnunar.
Misbrestir í starfsemi Orkustofnunnar
SI gjalda þess varhug að Orkustofnun verði falið jafn viðamikið hlutverk og inngripsheimildir og lagt er til. Að mati samtakanna hafa misbrestir í starfsemi stofnunarinnar tafið verulega alla uppbyggingu í raforkukerfinu og því álitamál um hæfi Orkustofnunar til að framfylgja þessu ætlaða hlutverki.
„Að gefnu tilefni telja SI einnig ástæðu til að vekja athygli atvinnuveganefndar á mögulegu vanhæfi Orkustofnunar til að sinna umræddu hlutverki á grundvelli ummæla orkumálastjóra á opinberum vettvangi. Er hér að neðan ágrip af einstaka ummælum orkumálastjóra sem SI telja ástæðu til að halda sérstaklega á lofti í þessu samhengi,” segir í umsögn SI.
Samtökin láta fylgja með í umsögn sinni ummæli Höllu Hrundar Logadóttur orkumálastjóra í Morgunblaðinu, RÚV og Kjarnanum þar sem Halla Hrund talar gegn raforkumarkaði og með miðstýringu.
„Samkvæmt framangreindu er byggt á því að orkumálastjóri hafi með tilvÍsuðum ummælum opinberað gildishlaðnar skoðanir sínar hvað varðar starfsemi fyrirtækja á samkeppnismarkaði með raforku og notendur, þá sérstaklega stórnotendur raforku og um leið hver vilji orkumálastjóra, og þ. a. l. Orkustofnunar, er varðandi með hvaða hætti og hvernig viðskiptum á frjálsum markaði með raforku skuli háttað. Má draga þá ályktun að slík opinber afstaða Orkustofnunar sem leyfisveitanda og eftirlitsaðila kunni að gefa til kynna huglæg skilyrði stofnunarinnar um forsendur leyfa til að stunda raforkuviðskipti.“