Einar Þorsteinsson borgarstjóri hefur lagt til að gatnagerðargjöld um 85% fyrir fjölbýlishús, 33% á parhús og 38% á annað húsnæði. Á borgarráðsfundi á föstudaginn var málinu vísað til borgarstjórnar og verður tillagan því tekin fyrir á fundi borgarstjórnar á morgun.

Í greinargerð með tillögunni segir að gatnagerðargjald sé einn af lykiltekjustofnum sveitarfélaga og því sé ætlað að standa undir gatnagerð í sveitarfélaginu og til viðhalds gatna og annarra gatnamannvirkja.

„Núverandi tekjur af gatnagerðargjöldum standa ekki undir kostnaði af gatnagerð og viðhaldi gatna og gatnamannvirkja og því nauðsynlegt að hækka gjaldstofninn. Vert er að árétta að þrátt fyrir hækkun munu tekjur af gatnagerðargjöldum ekki standa að fullu undir kostnaði við gatnagerð og viðhald þeirra.“

Með tillögunni fylgir samanburður á gatnagerðargjöldum hinna sveitafélaganna á höfuðborgarsvæðinu, Akureyrarbæjar og Reykjanesbæjar.

Úr greinargerð með tillögu borgarstjóra.

Tæplega 10 milljónir fyrir 100 fermetra íbúð í fjölbýli

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir að í raun sé um enn meiri hækkun að ræða en þar sem með breytingunni er lagt til að tekið verði upp gatnagerðargjald á bíla- og hjólageymslur ofanjarðar. Nú sé orðin skylda að byggja hjólgeymslur og því sé um ný viðbótargjöld að ræða.

Hann bendir á að samkvæmt núgildandi gjaldskrá sé gatnagerðargjald íbúðar í fjölbýlishúsi 16.338 krónur á fermetra (brúttó). Með hinni áformaðri breytingu mun gjaldið hækka um 85% eða í 30.256 krónur. Að viðbættu nýju gjaldi fyrir hjólageymslu megi gera ráð fyrir að hækkunin nemi um það bil 90%.

Kjartan segir að eftir breytinguna munu byggingarréttargjöld og gatnagerðargjöld því samanlagt nema nálægt tíu milljónum króna fyrir 100 fermetra íbúð í fjölbýlishúsi.

Eftirfarandi eru dæmi sem hann tekur um áhrif á gjaldendur í fjölbýlishúsum:

  • 60 fermetra íbúð (72 fm. brúttó) í fjölbýlishúsi. Gatnagerðargjaldið nemur 1.176.349 krónum fyrir hækkun en 2.243.425 kr. eftir hækkun. Hækkunin nemur því 1.067.075 kr. fyrir umrædda íbúð eða 90,7%.
  • 70 fermetra íbúð (84 fm. brúttó) í fjölbýlishúsi. Gatnagerðargjaldið nemur 1.372.408 krónum fyrir hækkun en 2.606.496 eftir hækkun. Hækkunin nemur því 1.234.088 kr. fyrir umrædda íbúð eða 90%.
  • 80 fermetra íbúð (96 fm. brúttó) í fjölbýlishúsi. Gatnagerðargjaldið nemur 1.568.466 krónum fyrir hækkun en 2.969.566 eftir hækkun. Hækkunin nemur 1.401.101 kr. fyrir umrædda íbúð eða 89%.
  • 90 fermetra íbúð (108 fm. brúttó) í fjölbýlishúsi. Gatnagerðargjaldið nemur 1.764.524 krónum fyrir hækkun en 3.332.637 kr. eftir hækkun. Hækkunin nemur 1.568.113 kr. eða 89%.
  • 100 fermetra íbúð (120 fm. brúttó) í fjölbýlishúsi. Gatnagerðargjald nemur 1.960.582 krónum fyrir hækkun en 3.695.708 kr. eftir hækkun. Hækkunin nemur því 1.735.126 kr. eða 88,5%.

Ekkert sveitarfélag á landinu leggi jafnhá gjöld á húsbyggjendur

Kjartan segir að hækkun gatnagerðargjalda fela í sér hækkun byggingarkostnaðar og sé viðbótarskattur á húsbyggjendur sem muni hafa neikvæð áhrif á húsnæðismarkaðinn í borginni.

„Með breytingunni mun Reykjavíkurborg enn auka álögur á húsbyggendur og þar með íbúðakaupendur. Ekkert sveitarfélag á landinu leggur jafnhá gjöld á húsbyggjendur og Reykjavíkurborg og líklegt er að umrædd hækkun hækki íbúðaverð enn frekar.“

Hann segir að þessi mikla hækkun gatnagerðargjalda bætist við önnur gjöld og kvaðir, sem húsbyggjendur í Reykjavík inna nú þegar af hendi. Reykjavíkurborg innheimti nú þegar afar há byggingarréttargjöld (innviðagjöld), sem geta numið nálægt 60 þúsund krónum á nettófermetra í fjölbýlishúsi.

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.
© Eggert Jóhannesson (M mynd/Eggert Jóhannesson)