Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, leggur til að gildistími ákvæða um stuðning við og við einkarekna frétta- og dagskrármiðla verði framlengdur til ársins 2028.
Samkvæmt frumvarpsdrögum í samráðsgátt er gert ráð fyrir að árlegur kostnaður frá 1. janúar 2025 verði í kringum 500 milljónir en fjárhæðin miðast við fjárlög hvers árs.
„Almennt hefur verið sátt meðal fjölmiðla um styrkjaumhverfið hér á landi. Hafa útgefendur nefnt þess dæmi að rekstrarstuðningurinn sé grundvöllur þess að hægt sé að halda rekstri fjölmiðla gangandi, því að kostnaður tengdur t.d. prentun og dreifingu hafi aukist mjög á undanförnum árum. Styrkirnir hafa einnig reynst staðbundnum miðlum sérstaklega vel og verið mikilvægur liður í því að viðhalda rekstri þeirra,“ segir í frumvarpsdrögum.
Í frumvarpsdrögum segir jafnframt að ljóst er að stuðningur til einkarekinna fjölmiðla er veigamikill þáttur í rekstri fjölmiðla, einkum minni fjölmiðla á landsbyggðinni.
Þar segir ennfremur að markmiðið sé að styðja með fyrirsjáanlegum hætti við einkarekna fjölmiðla, en fjölmiðlar eru hornsteinn lýðræðis og með stuðningnum er þeim gert betur kleift að sinna hlutverki sínu.
„Starfsemi einkarekinna fjölmiðla er ein meginforsenda þess að almenningur hafi aðgang að fjölbreyttum fréttum og áreiðanlegum upplýsingum. Margt bendir til þess að brottfall styrkjakerfis gæti haft veruleg og neikvæð áhrif á rekstrarumhverfi fjölmiðla, leitt til frekari samdráttar og fækkunar fjölmiðla á markaði og þar með haft skaðleg áhrif á samkeppni og fjölbreytni á íslenskum fjölmiðlamarkaði.“