Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið leggur til við umhverfis- og samgöngunefnd að gerð verði breyting á raforkulögum sem felur í sér Umhverfis- og orkustofnun yrði heimilt að veita bráðabirgða virkjunarheimild í sérstökum undantekningartilvikum, þegar brýn þörf er á að hefja eða halda áfram framkvæmd.

Þetta kemur fram í minnisblaði ráðuneytisins til nefndarinnar sem hefur haft frumvarp um breytingu á raforkulögum og lögum um stjórn vatnamála til umfjöllunar. Frumvarpið var lagt fram í byrjun síðasta mánaðar kjölfar dóms Héraðsdóms í máli Hvammsvirkjunar og fól í sér ákvæði um flýtimeðferð og breytingar á vatnshloti.

Landsvirkjun var meðal þeirra sem skiluðu inn umsögn til nefndarinnar í lok febrúar og var þar lagt til að skoðað yrði hvort hægt væri að gera breytingar á raforku- og skipulagslögum sem fæli í sér heimild til að veita virkjunar- og framkvæmdaleyfi til bráðabirgða, þegar sérstök rök mæla með því.

Ráðuneytið telur tillöguna skynsama þar sem slík heimild er þegar til staðar í íslenskri löggjöf, þ.e. í lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir. Í tillögunni felist í raun samræming á málsmeðferðareglum sem nýsameinuð Umhverfis- og orkustofnun starfar eftir, en fyrir sameiningu voru raforkulög á ábyrgð Orkustofnunar og lög um hollustuhætti og mengunarvarnir á ábyrgð Umhverfisstofnunar.

„Það er mat ráðuneytisins að það kunni almennt að vera gagnlegt að löggjöfin bjóði upp á bráðabirgðaheimildir við tilteknar aðstæður. Slíkar aðstæður kynnu t.a.m. að vera fyrir hendi hafi leyfi verið fellt úr gildi með dómi eða stjórnvaldsúrskurði sökum annmarka á málsmeðferð. Þannig er ekki útilokað að endanleg niðurstaða dómsmáls leiði í ljós ágalla þess eðlis að til skoðunar komi að veita virkjunarheimild til bráðabirgða gegn því skilyrði að bætt yrði úr ágöllum áður en endanlegt leyfi hljóti afgreiðslu,“ segir í minnisblaðinu.

Í viðauka minnisblaðsins má finna hugmynd að breytingartillögu nefndarinnar en þar koma fram skilmálar og takmarkanir á veitingu slíkra leyfa. Lagt er til að hægt verði að veita bráðabirgðaheimild til allt að eins árs en heimilt sé að framlengja það um allt að eitt ár að uppfylltum skilyrðum.