Kirkbi, fjár­festingafélag Kristian­sen-fjöl­skyldunnar sem er aða­l­eig­andi Lego, hefur stofnað nýtt fjár­festingafélag, Kirkbi-Climate.

Sam­kvæmt Børsen hefur fjöl­skyldan ráðið Anupam Bhargava sem for­stjóra en hann mun taka við stöðunni 1. febrúar næst­komandi.

Í frétta­til­kynningu segir að Bhargava sé með mikla reynslu og sérþekkingu á sjálf­bærni og auðlinda­skil­virkni frá fyrir­tækjunum eins og Nil­fisk og Grund­foss.

„Kirk Kristian­sen-fjöl­skyldan hefur sett sér framsýna langtímasýn um að gera veru­legt átak í tengslum við hnattrænar lofts­lagsáskoranir. Með stofnun Kirkbi Climate og ráðningu Anupams höfum við lagt traustan grunn til að fylgja þessari sýn eftir,“ segir Søren Thorup Søren­sen, for­stjóri Kirkbi, í frétta­til­kynningu.

Kirkbi stýrir nú lofts­lags­fjár­festinga­safni sem nemur um 8 milljörðum danskra króna.

Anupam Bhargava forstjóri Kirkbi Climate
Anupam Bhargava forstjóri Kirkbi Climate

Með stofnun Kirkbi Climate og ráðningu Anupam Bhargava sem for­stjóra hefur fyrir­tækið sett sér mark­mið um að fjár­festa allt að 10 milljörðum danskra króna í lofts­lags- og orkumálum á næstu fimm árum.

Samvarar það um 194 milljörðum íslenskra króna á gengi dagsins.

Hluti af nýrri kynslóð

Stofnun Kirkbi Climate er hluti af kynslóða­skiptum þar sem Børsen greindi frá því á síðasta ári að Kirkbi vildi tryggja að áherslumálum og framtíðarsýn Kirk Kristian­sen-fjöl­skyldunnar yrði fram­fylgt.

Af þeim sökum var Kirkbi Climate stofnað sem sjálf­stætt félag.

„Kynslóða­skiptin hafa verið gott tækifæri til að skoða hvert áherslu­svið næstu kynslóðar á að vera og hvaða leið fjöl­skyldan ætlar sér næst. Framtíðar­auðlindirnar verða nýttar í leik barna, nám og lofts­lags­mál, og fjöl­skyldan hefur sett sér metnaðar­full mark­mið á þessum sviðum,“ sagði Søren Thorup Søren­sen, for­stjóri Kirkbi, á sínum tíma við Børsen.

Kirkbi hóf sínar fyrstu fjár­festingar í endur­nýjan­legri orku árið 2012, þegar félagið, ásamt þáverandi Dong, nú Ørsted, fjár­festi í vind­myllugarði á hafi úti.

Síðan þá hafa metnaðar­fyllri mark­mið í grænni um­breytingu og lofts­lags­málum komið til sögunnar. Meðal annars eru hjá Kirkbi stórar áætlanir um nýtingu lands, þar sem fyrir­tækið stefnir að því að um­breyta 10.000 hekturum – svæði á stærð við Amager – úr ræktar­landi í skóg­lendi.

Kirkbi hefur ekki birt árs­reikning fyrir árið 2024 en hagnaður félagsins nam 3,7 milljörðum danskra króna árið 2023 sem sam­svarar 74 milljörðum ís­lenskra króna á þáverandi gengi.

Árið var þó heldur storma­samt þar sem af­skriftir settu strik í reikninginn.

Kirkbi þurfti að af­skrifa um 1,8 milljarða danskra króna í tveimur Legoland-skemmtigörðum í eigu Merlin En­terta­in­ments en Kirkbi á 47,5% hlut í fyrir­tækinu. Af­skriftirnar eru hluti af um milljarða dala tapi Merlin í fyrra.

Stærsta eign félagsins er 75% hlutur í The Lego Group en hagnaður félagsins jókst um 20,7% milli ára og skilaði 16,4 milljörðum danskra króna hagnaði fyrir skatt.

„Þegar öllu er á botninn hvolft var þetta ágætis ár,“ sagði Søren Thorup Søren­sen, fram­kvæmda­stjóri Kirkbi, í upp­gjörinu.