Danski leikfangaframleiðandinn Lego hefur ákveðið að yfirgefa Rússlandsmarkaðinn varanlega. Lego hefur slitið samstarfi við rússneska smásölufyrirtækið Inventive Retail Group sem hefur rekið 81 verslun fyrir hönd þeirra.

Leikfangaframleiðandinn stöðvaði vöruflutninga til Rússlands í mars síðastliðnum, skömmu eftir innrás Rússa í Úkraínu, en Lego-verslunum var þó haldið opnum. Í umfjöllun BBC segir að Lego hafi verið meðal fárra stórra vestrænna vörumerkja sem héldu áfram úti rekstri í Rússlandi.

Danska fyrirtækið tilkynnti að flestum í starfshópi þess í Moskvu verði sagt upp. Leikfangaframleiðandinn segist hafa veitt um 70 starfsmönnum fjárhagslegum stuðning á meðan þeir leita að nýjum störfum.