Upplýsingatæknifyrirtækið AviLabs hefur lokið 8 milljóna evra fjármögnun, eða sem nemur 1,2 milljörðum króna. Vísisjóðurinn Frumtak Ventures leiddi fjárfestinguna og Brunnur Vaxtasjóður, sem fjárfesti fyrst í AviLabs árið 2022, tók einnig þátt í nýju fjármögnunarlotunni.
Hugbúnaður AviLabs, Plan3, auðveldar flugfélögum að leysa úr vandamálum sem geta orðið vegna röskunar á flugi. Lausn AviLabs gerir farþegum kleift á auðveldan hátt, í gegnum vefviðmót, að leysa sjálft úr vandamálunum sem geta komið upp þegar flugi er seinkað eða fellt niður.
Í tilkynningu segir að áætlað sé að truflanir á flugi leiði til 60 milljarða evra rekstrarkostnaðar og neikvæðrar fjölmiðlaumfjöllunar í flugiðnaðinum.
Sveinn Akerlie, sem var áður yfir upplýsingatæknimálum hjá Wow Air, er forstjóri og stofnandi AviLabs. Hann segir að öll flugfélög leiti nú leiða til að draga úr áhrifum rasakana á flugi, aflýsinga og þegar farþegar missa af tengiflugi vegna slíkra þátta, á upplifun viðskiptavina. Plan3 sé skilvirk og hagkvæm lausn til að aðstoða flugfélögum í þessum efnum.
Andri Heiðar Kristinsson, fjárfestingarstjóri Frumtak IV sjóðsins, segir að Plan3 lausnin sé í stöðu til að verða leiðandi á því sviði flugiðnaðar hvernig brugðist er við röskunum á flugi og bæta þannig flugrekstur.
Sigurður Arnljótsson, annar stofnenda Brunns Ventures, segir að áframhaldandi fjárfesting sjóðsins í AviLabs sé merki um þann árangur sem AviLabs hafi náð á skömmum tíma.