Verkís verkfræðistofa leiðir umfangsmikið samstarfsverkefni þar sem unnið er að því að þróa og prófa nýsköpunarlausnir í orkuskiptum með endurbótum á flutningaskipi í rekstri (e. retrofit) og koma svo lausnunum á markað. Verkefnið, sem styrkt er af Evrópusambandinu, er upp á 2,5 milljarða króna.

Verkefnið, sem hefur fengið nafnið GAMMA (Green Ammonia and Biometanol fuel MARitime Vessels), hófst í þessum mánuði og mun standa yfir í fimm ár. Að verkefninu stendur teymi 16 fyrirtækja og rannsóknarstofnana frá 11 Evrópulöndum.

„Sjóflutningar þurfa að verða umhverfisvænni en það er markmið GAMMA verkefnisins sem styrkt er af Evrópusambandinu, svo fyrirtæki og vísindamenn frá Evrópu geti þróað tæknilausir og breytt ítölsku flutningsskipi til að nýta rafeldsneyti í stað jarðefnaeldsneytis fyrir hluta af orkuþörf skipsins,“ segir í fréttatilkynningu.

Auk verkefnastjórnunar sér Verkís um lagnahönnun fyrir rafeldsneytið, eldvarnir, brunaöryggi og áhættustjórnun, auk þess að eiga þátt í hönnunarstjórnun, hönnun eldsneytiskerfis og lífsferilsgreiningu.

„Við munum setja nýjan tækjabúnað um borð í flutningaskip og prófa meðan skipið er í flutningum á milli landa og sanna að hægt sé að nota eldsneytiskerfi sem gengur fyrir rafeldsneyti í stað þess að nota jarðefnaeldsneyti á varaaflvél skipsins. Ef það gengur eftir væri næsta skref að skipta um aðalvél skipsins fyrir full orkuskipti. Verkefnið er mjög framsækið og getur gjörbylt orkuskiptum á sjó,“ segir Kjartan Due Nielsen, nýsköpunarstjóri hjá verkfræðistofunni Verkís.

Nýtt eldsneytiskerfi verði sett upp í flutningaskipinu án þess að skerða rekstrargetu þess. Ammoníak og lífmetanól verður flutt um borð í skipið og síðan umbreytt í vetni. Vetninu er svo breytt í raforku með efnarafali sem mun sjá um að knýja varaaflvél skipsins (e. auxillary generator). Sú orka sem þarf til þess að umbreyta vetninu verður fengin með sólarsellum sem verður komið fyrir á skipinu.

Þarf að uppfæra eldri skip

Bent er á að hefðbundnir skipaflutningar krefjist mikils magns af jarðefnaeldsneyti og losi um 2,5% gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu. Um 80-90% vöruflutninga í heiminum eru með flutningaskipum.

Alþjóðasiglingamálastofnunin (e. International Maritime Organizations, IMO) hefur sett það markmið fyrir sjávarútveginn að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og stefna á kolefnishlutleysi fyrir árið 2050. GAMMA verkefnið á að styðja við þetta markmið.

„Ljóst er að hröð þróun mun þurfa að eiga sér stað til þess að markmið IMO um kolefnishlutleysi náist. Langflest stórflutningaskip í dag ganga fyrir jarðefnaeldsneyti en líftími skipa er langur. Því er mikilvægt að finna möguleika til þess að nýta eldri skip áfram uppfæra þau vistvænni tæknilausnum.“