Leiðandi hag­vísir Analyti­ca hækkaði í janúar fimmta mánuðinn í röð og stendur nú í 100,1. Þetta gefur vís­bendingu um að verg lands­fram­leiðsla (VLF) verði í júlí í takt við langtíma­leitni.

Að sögn sér­fræðinga Analyti­ca benda niður­stöðurnar til þess að efna­hags­um­svif séu að aukast.

„Miðað við staðlaða mælikvarða þá er nú um að ræða marktæka vísbendingu um bjartari horfur,“ segir í skýrslu Analytica.

Fimm af sex undir­liðum vísitölunnar hækkuðu frá desember en væntinga­vísi­tala Gallup og verðhækkun er­lendra hluta­bréfa höfðu mest að segja á jákvæðu hliðinni. Þá hefur vöru­inn­flutningur einnig glæðst að undan­förnu.

Þróun leiðandi hagvísis Analytica er sýnd á mynd 1 (blár ferill) ásamt þróun vergrar landsframleiðslu (VLF - brotinn ferill). Reynslan er sú að leiðandi hagvísir er að jafnaði um 6 mán. á undan þróun landsframleiðslu.

Bjartsýni eykst sam­hliða lækkandi vöxtum

Væntinga­vísi­tala Gallup hefur tekið við sér frá október og er nú á hækkunar­ferli. Þetta gefur til kynna aukna bjartsýni meðal neyt­enda og fyrir­tækja. Þróunin fer saman við lækkandi stýri­vexti Seðla­banka Ís­lands, sem hafa dregið úr fjár­magns­kostnaði og stuðlað að aukinni eftir­spurn.

Sam­kvæmt tölum Analyti­ca hafa einstök gildi hag­vísisins verið endur­skoðuð í ljósi nýrra gagna um undir­þætti. Endur­matið hefur leitt til þess að langtíma­leitni hefur verið leiðrétt og hag­vísirinn gefur skýrari mynd af þróun efna­hags­mála.

Óvissa í alþjóð­legu sam­hengi

Þrátt fyrir jákvæða þróun er áfram tals­verð óvissa í alþjóð­legum efna­hags­málum og stjórn­málum. Óvissan gæti haft áhrif á við­skipta­horfur, sér­stak­lega í ljósi sveiflna á alþjóðamörkuðum og breytinga á efna­hags­stefnu helstu við­skiptaþjóða Ís­lands.

Leiðandi hagvísir Analytica 2024-2025
Leiðandi hagvísir Analytica 2024-2025

Leiðandi hag­vísir Analyti­ca er reiknaður með sömu að­ferðafræði og sam­bæri­legir vísar hjá OECD. Hann byggir á sex undir­þáttum sem gefa vís­bendingar um framtíðarþróun efna­hags­lífsins, þar á meðal afla­verðmæti, debet­korta­veltu, ferða­manna­fjölda, heims­vísitölu hluta­bréfa, inn­flutning og væntinga­vísitölu Gallup.

Næsta birting vísitölunnar verður 20. mars 2025.