Ný vefsíða er komin í loftið undir heitinu vinfinnur.is en síðan hjálpar fólki að finna besta mögulega vínverð á Íslandi. Höfundar vefsíðunnar eru Einar Örn Bergsson og Emil Aron Thorarensen.

Í stuttu máli safnar vefsíðan upplýsingum um vín sem eru til sölu á Íslandi og tengir þær síðan við smáforritið Vivino. Einkunn er síðan reiknuð út sem tekur mið af því hversu gott vínið er miðað við verðlag.

Einar Örn Bergsson, stofnandi vefsíðunnar, segir að hann hafi fengið hugmyndina að síðunni fyrir nokkrum árum síðan en ákvað í sumar að láta til skarar skríða.

„Þetta hafði alltaf bara legið á hakanum en svo í sumar var ég uppi í sumarbústað með fjölskyldunni. Ég vaknaði þá alltaf með krökkunum og nýtti bara morgnana til að reyna að búa til frumútgáfu af þessu.“

Hann fékk síðan vin sinn, Emil Aron Thorarensen, til að hjálpa sér við hönnun á útliti síðunnar en Einar sérhæfir sig meira í gagnasöfnun og almennri forritun.

Vínfinnur safnar upplýsingum frá sex mismunandi vínverslunum: ÁTVR, Sante, Desma, Smáríkið, Veigar og Costco. Hver flaska er síðan reiknuð út frá módeli sem félagarnir hönnuðu en þá fær flaskan einkunn fyrir það hversu ódýr eða dýr hún er á Íslandi.

„Við sjáum til dæmis eina flösku sem kostar 3.000 krónur, en miðað við módelið okkar þá ætti hún í raun að kosta 3.500 krónur og fær hún þá hærra verð. Við bættum líka við mismunandi flokkum þar sem hvítvín fá oft betri einkunn miðað við verð.“

Einar segir að vefsíðan hafi verið starfrækt í nokkrar vikur en félagarnir hafi ekki viljað auglýsa hana fyrr en þeir hafi verið búnir að laga þær villur sem koma gjarnan upp þegar slíkar nýjar vefsíður fara í loftið.

„Við viljum líka biðja fólk um álit sitt á síðunni því við erum með fullt af hugmyndum en svo er ekki víst að aðrir séu með sömu hugmynd. Maður er líka ekki alltaf sammála einkunninni en hún hjálpar manni samt sem áður að finna nýjar víntegundir.“