Auður Nanna Baldvinsdóttir er framkvæmdastjóri Iðunnar H2, sem er þróunarfélag á sviði vetnis. Fyrsta verkefni félagsins er eldsneytisvinnsla í Helguvík þar sem framleitt verður samsett þotueldsneyti. „Við miðum við að geta framleitt um 10% af eldsneytisnotkun í Leifsstöð árið 2028. Það myndi þýða samdrátt í losun úr millilandaflugi, sem tekur á loft frá Íslandi, upp á um 10%,“ segir Auður Nanna.
Hún nefnir að eldsneytisvinnslan í Helguvík sé fyrsta verkefni félags, en í því felist stórfelldur og rekjanlegur samdráttur í losun. „Þetta er vonandi bara fyrsta verkefnið af mörgum sem við munum taka þátt í að þróa á Suðurnesjunum. Þar er meira en helmingur af allri jarðefnaeldsneytisnotkun á landinu. Það er því mikil vinna framundan á svæðinu og við viljum vera hluti af þeirri orkuskiptavegferð.“
Tregða orkufyrirtækjanna helsta fyrirstaðan
Þó Iðunn H2 sé komið með fýsileikakönnun og þar að leiðandi vilyrði um raforku telur Auður Nanna tregðu orkufyrirtækjanna til að gera viljayfirlýsingar um orku til orkuskiptaverkefna senda röng skilaboð til markaðarins. Landsvirkjun hafi gefið það út að forgangsraða eigi orku til orkuskipta, vandinn felist hins vegar í skorti á viljayfirlýsingum. Hún telur að best færi á því að bjóða út orku til orkuskipta á skilvirkan máta þar sem ferlið væri gagnsætt.
„Helsta fyrirstaða orkuskiptaverkefna í dag er tregða orkufyrirtækjanna til að gefa út viljayfirlýsingar og þróa virkjanakosti samhliða þróun orkuskiptaverkefna. Það fyrsta sem orkuskiptaverkefni þurfa í samtali við erlenda fjárfesta og tæknisamstarfsaðila er vilyrði um rafmagn.“ Þá telur hún mikilvægt að ríkið setji fram beittari áætlun varðandi hvernig útvega eigi rafmagn til orkuskipta.
Áætlað er að starfsemi félagsins í Helguvík geti skapað um það bil hundrað störf. Það sé þó ekki það mikilvægasta því í efnahagslegu samhengi verði líka talsverður gjaldeyrissparnaður af þessari stóru fjárfestingu í framtíðinni. Ruðningsáhrifin yrðu einnig mikil og myndu byggja undir markmið Íslands um orkuskipti. „Með því að hleypa verkefni eins og Iðunn H2 af stokkunum skapast þekking, ferlar og færni sem mun nýtast í komandi áskorunum.“
Nánar er fjallað um málið í sérblaðinu Viðskiptaþing - Er framtíðin orkulaus eða orkulausnir. Áskrifendur geta lesið greinina í heild hér.