Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segist hafa áhyggjur af stöðu mála á heimsmörkuðum í kjölfar ákvörðunar Donalds Trumps, Bandaríkjaforseta, um að setja tolla á innfluttar vörur til Bandaríkjanna. Í viðtali á Rás 2 í gærmorgun sagði hann ákveðna hættu á því að þetta gæti leitt til heimskreppu.
Hafsteinn Hauksson, aðalhagfræðingur Kviku banka, segir ekki sjálfgefið að tollastríðið leiði til heimskreppu, sérstaklega ef tollar verði mildaðir. Evrópsk hagkerfi eru að ráðast í mikla fjárfestingu í varnarmálum og innviðum, og það er ýmislegt sem ríki heimsins geta gert til að auka viðskipti sín á milli án Bandaríkjanna,” segir Hafsteinn.
„Svona hlutir geta stutt við hagvöxt á heimsvísu. En það er því miður ekki hægt að útiloka heimskreppu, ekki bara vegna beinna áhrifa tollanna heldur ekki síður vegna þess að óvissa dregur þróttinn úr atvinnulífinu, fyrirtæki slá ráðningum og fjárfestingum á frest og það getur haft mjög snögg kælingaráhrif. En staðreyndin er sú að það er ómögulegt að sjá fyrir hvað gerist næst.”
Lítil skuldsetning
Að sögn Hafsteins er íslenskur þjóðarbúskapur heilt yfir vel í stakk búinn til að takast á við erfiðleika, bæði á fjármálamarkaði og í raunhagkerfinu.
„Yfirleitt eru það skuldir sem sökkva skútunni þegar raunhagkerfið gefur eftir, og við búum svo vel að vera tiltölulega lítið skuldsett í augnablikinu – og það gildir um heimili, fyrirtæki, hið opinbera og fjármálakerfið. Það eykur áfallaþolið alveg verulega þegar eitthvað bjátar á.
En ég hef áhyggjur af því hvaða áhrif þetta hefur á íslenskan útflutning og þar með á þjóðarbúskapinn. Við stöndum undir meira en 40% okkar landsframleiðslu með útflutningi. Jafnvel þótt við höfum lent í neðsta tollaþrepi Trump og eigum ekki nema 2-3% landsframleiðslu okkar undir beinum vöruútflutningi til Bandaríkjanna, þá erum við berskjölduð fyrir því ef tollastríð leiðir til bakslags í alþjóðlegri eftirspurn og útflutningur okkar eða viðskiptakjör rýrna.“
Hafsteinn segir að viðbrögðin á íslenska markaðnum hafi vafalaust komið einhverjum spánskt fyrir sjónir.
„Enda er í einhverjum tilvikum verið að refsa fyrirtækjum, sem er alls ekki augljóst að beri skarðan hlut frá borði þótt Bandaríkin leggi tolla á íslenskan útflutning, til dæmis félögum sem eru mest að sinna innanlandsmarkaði. Ég held að það hafi miklu meira með aukna áhættufælni eða endurverðlagningu á áhættu að gera en breyttar rekstrarhorfur.
Áhrifin á hlutabréfaverð ýkjast svo vegna þess að seljanleiki á innlenda hlutabréfamarkaðnum minnkar þegar fjárfestar halda að sér höndum – undanfarna daga höfum við í einhverjum tilvikum séð nokkuð stórar verðsveiflur í óverulegri veltu.“
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.