Áramótin eru gjarnan vinsæll tími fyrir fólk til að núllstilla líf sitt og nota þá margir tækifærið til að hætta að reykja, drekka minna og huga að heilsunni. Þróunin sést þá vel í líkamsræktarstöðvum þar sem margir vinna hart að því að svitna úr sér gamla árið.

Margir vinna hins vegar langa vinnudaga og þurfa þá líka að huga að bæði heimili og börnum og kjósa því frekar að stunda líkamsrækt heima í stofunni eða inni í bílskúr.

Um áramótin fór vefsíðan heimaform.is í loftið en tilgangur hennar er einmitt að hjálpa fólki sem vill frekar æfa sig heima hjá sér. Á vefsíðunni er meðal annars hægt að leigja þrekhjól, hlaupabretti, róðravélar og lóðir.

Ernir Skorri Pétursson, einn af stofnendum síðunnar, segir að hugmyndin hafi kviknað fyrir löngu síðan og að það hafi lengi staðið til að koma síðunni í gang. Ákvörðun hafi svo verið tekin 29. desember sl. og eftir tveggja daga vinnu var síðan komin í loftið á gamlársdag.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaði vikunnar. Áskrifendur geta nálgast umfjöllunina í heild sinni hér.